Ætlaði að gera upp hús en endaði á að opna gistiheimili

Ætlaði að gera upp hús en endaði á að opna  gistiheimili
Gistihús Hólmavíkur opnaði dyrnar 2019 en þá hafði húsið verið tekið algjörlega í gegn.

N4 ritstjórn15.09.2021

„Mig vantaði nýja vinnu og færði mig hingað þar sem ég átti hús sem var áhugavert að taka í gegn og laga. Og ég byrjaði bara á því, svo fæddist þessi hugmynd," segir Þráinn Ingimundarson, gistihúsaeigandi á Hólmavík.

Þráinn segir að fljótlega hafi hugmyndin um gistihús í húsinu kviknað enda sé húsið staðsett á mjög fallegum og góðum stað á Hólmavík. Uppgerðin hófst árið 2016 og gistiheimilið, Gistihús Hólmavíkur, var opnað árið 2019. Þar er pláss fyrir 20 manns í rúmum í 10 herbergjum.

fyrir breytingu.jpg

Húsið áður en það var tekið í gegn.

Opnaði bistró í sumar

Gistihús Hólmavíkur er ekki eina húsið sem Þráinn hefur gert upp á Hólmavík því hann er að líka að vinna í húsinu við hliðina á gistiheimilinu, Jónshúsi eða Kristjánsborgarhöll. Það er því í nógu að snúast, en í sumar bættist líka veitingarekstur við verkefnalistann þegar bistro var opnað í Gistihúsinu. „Það var svona leið til að nota daginn. Við erum með fallegar svalir með góðu útsýni og fínt að nota þær til sölu á einhverjum veitingum," segir Þráinn.

Þráinn var í viðtali í þættinum Að vestan Vestfirðir á N4 en þar ræddi hann m.a. afþreyingarmöguleika á Hólmavík o.fl. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.