Áhöfninni bannað að fara í bað nema á landleið

Áhöfninni bannað að fara í bað nema á landleið
Arngrímur og Þorsteinn rifja upp gamla tíma á sjónum og bera saman við sjómennskuna í dag / mynd n4.is

Arngrímur Brynjólfsson og Þorsteinn Vilhelmsson eru báðir reyndir skipstjórar. Þeir sigldu til Íslands með nýjum Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 sem kom til Akureyrar um páskana. Karl Eskil Pálsson tók viðtal við þá í brú Vilhelms á siglingunni heim, umræðuefnið var meðal annars sjómennska fyrri tíma.

„Hérna á árum áður var áhöfninni jafnvel bannað að fara í bað nema á landleið, vegna þess að vatnsbirgðirnar voru mjög takmarkaðar. Hérna um borð er hins vegar gufubað, líkamsrækt og sturta í hverjum klefa, þannig að breytingarnar eru gríðarlegar hvað þetta varðar," segir Þorsteinn.

Í þættinum rifja þeir félagarnir upp sögur af sölutúrum erlendis og fleira. En hvað einkennir góðan sjómann. Arngrímur svarar þeirri spurningu.

„Ja, viðkomandi þarf að vera duglegur, vilja sem sagt vinna og hafa áhuga á sjómennsku. Skipið er á margan hátt lokað samfélag og taka þarf tillit til þess. En það er eitthvað við sjómennskuna, hafið tosar er stundum sagt og það eru orð að sönnu,“ segir Arngrímur.

Þátturinn Landsbyggðir er á dagskrá N4 í kvöld, klukkan 20:30