Akureyringar haldið fyrir eyrun!

Akureyringar haldið fyrir eyrun!
Heræfingar við Akureyrarflugvöll eru umdeildar og hávaðasamar. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir ónæðinu sem af aðflugsæfingum hlýst ættu að halda fyrir eyrun á mánudag. Mynd: Unsplash/kyle smith

N4 ritstjórn21.02.2021

Búast má við hávaða á Akureyri fyrripart mánudags á meðan aðflugsæfingar standa yfir hjá norska flughernum. Reikna má með því að ónæðið standi yfir á milli klukkan 10 og 15. Kannski vissara fyrir viðkvæma að finna fram eyrnatappana?

Akureyringar hafa oft þurft að finna sig í ónæði vegna flugæfinga herþotna en að þessu sinni telur Akureyrarbær rétt að láta íbúa vita af mögulegu ónæði vegna þessa og hefur því sett tilkynningu á heimasíðu sína vegna æfinganna. Þar kemur eftirfarandi fram:

Alls munu um 130 liðsmenn norska flughersins taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Flugsveitin kemur til landsins eftir helgi með fjórar F-35 orrustuþotur og hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Framkvæmd verkefnisins verður með sama hætti og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Eins og með annan erlendan liðsafla sem dvelur tímabundið hér á landi gilda strangar sóttvarnarreglur meðan á dvöl norsku flugsveitarinnar stendur. Framkvæmdin er unnin í samvinnu við Embætti landlæknis og aðra sem koma að sóttvörnum hér á landi og í Noregi.

Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki í lok mars.