Aldraðir höfuðborgarbúar geta farið á nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi

Aldraðir höfuðborgarbúar geta farið á nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi
Hönnuðir hússins eru Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. og fyrirtækið Eykt hefur annast framkvæmdirnar.

N4 ritstjórn13.01.2022

Nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi verður tekið í notkun í mars. Hluti af hjúkrunarrýmunum verður tímabundið til ráðstöfunar fyrir íbúa af höfuðborgarsvæðinu sem bíða eftir hjúkrunarrými í borginni.

Nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi fyrir 60 íbúa verður afhent tilbúið til notkunar í byrjun mars. Heimilið er samstarfsverkefni ríkis og Sveitarfélagsins Árborgar og kemur m.a. í stað tveggja hjúkrunarheimila sem lögð voru af á Suðurlandi árið 2016. Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun reka heimilið, ásamt 40 öðrum hjúkrunarrýmum sem eru við stofnunina á Selfossi.

40 rými af 100 fyrir höfuðborgarbúa

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið, að höfðu samráði við sveitarfélagið Árborg, að 40 af þessum 100 rýmum í rekstri HSU, verði tímabundið til ráðstöfunar fyrir íbúa af höfuðborgarsvæðinu sem bíða eftir hjúkrunarrými. Þrátt fyrir þetta leiðir opnun nýja heimilisins til þess að hjúkrunarrýmum í Árborg fjölgar um 25 sem uppfyllir þá þörf sem fyrir er á svæðinu. Tryggt verður að forgangur fólks sem bíður eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu haldist, þrátt fyrir að það þiggi tímabundið rými á Selfossi. Auglýst hefur verið eftir starfsfólki á nýja hjúkrunarheimilinu og gert ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji þar inn þegar líður á marsmánuð. Á heimilinu eru fimm búsetueiningar fyrir 12 íbúa hver.

Deila