„Alltaf stór og gleðileg stund þegar nýtt skip kemur til bæjarins“

„Alltaf stór og gleðileg stund þegar nýtt skip kemur til bæjarins“
Skipstjórarnir Guðmundur Þ. Jónsson og Birkir Hreinsson, Ásthildur Sturludóttir og dóttir hennar Lilja Sigríður Hafþórsdóttir / mynd n4.is

Nýtt uppsjávarveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom til Akureyrar í morgun en skipið var smíðað í Danmörku. Skipið er afar fullkomið, bæði hvað varðar tæknina um borð og allan aðbúnað áhafnar og veiða. Nýr Vilhelm Þorsteinsson ber rúmlega þrjúþúsund tonn af kældum afurðum.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri skoðaði skipið skömmu eftir heimkomu í fylgd stjórnenda Samherja og skipstjóra Vilhelms. Hún segir að bæjarbúar gleðjist við komu skipsins.

„Það er alltaf stór og gleðileg stund að fá nýtt skip í bæinn. Svona öflugt skip skilar meiri afköstum og þar með auknum tekjum inn í samfélagið. Við gleðjumst mjög yfir því og fyrir hönd bæjarbúa óska ég Samherja og starfsmönnum fyrirtækisins hjartanlega til hamingju með þetta glæsilega skip,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Ekki er hægt að sýna skipið almenningi vegna heimsfaraldursins. Þess í stað sýnir N4 þátt um skipið annan í páskum, klukkan 20:00.

Rétt er að taka fram að öllum reglum um varnir gegn Covid var fylgt í hvívetna um borð, samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda.