Hvetja fólk til að gefa blóð áður en haldið er í ferðalag

Hvetja fólk til að gefa blóð áður en haldið er í ferðalag
Mynd: Unsplash/Nguyễn Hiệp

N4 ritstjórn14.06.2022

Sumartíminn reynist starfsemi Blóðbankans gjarnan erfiður þar sem ferðalög eru tíðari og blóðgjafar síður heima við en annars. Það er því starfseminni dýrmætt þegar blóðgjafar muna eftir að gefa blóð áður en haldið er í fríið.

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn er haldinn hátíðlegur 14. júní ár hvert. Dagurinn er haldinn til heiðurs blóðgjöfum um heim allan sem gefa af óeigingirni blóð og blóðhluta sem síðan er gefið til sjúkra. Mikil þörf er á að fjölga blóðgjöfum, því er tilvalið að nýta þennan hátíðisdag til að ganga í hóp vaskrar sveitar blóðgjafa sem tryggja samfélaginu dýrmætt framboð af blóði og blóðhlutum. 


Vantar kvenkyns blóðgjafa

Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á dag allan ársins hring og þegar fólk er á ferðalögum reynist það starfseminni erfitt. 

Á Íslandi eru virkir blóðgjafar um 2.000 færri en þeir þurfa að vera. Þessu til viðbótar eru um 2.000 gjafar á hverju ári sem hætta að gefa sökum aldurs eða annara orsaka. Heildar þörf Blóðbankans á nýliðun í blóðgjafahópnum er því um 4.000 blóðgjafar á ári segir í fréttatilkynningu frá Blóðbankanum. Þá eru konur sérstaklega hvattar til þess að gerast blóðgjafar en Ísland er sér á báti þegar kemur að lágum fjölda kvenna í hópi blóðgjafa. Af heildar magni heilblóðs á Íslandi á um 27% uppruna sinn hjá konum, á meðan 44% af heilblóði á uppruna sinn hjá konum í Svíþjóð. 

 

Góðar veitingar í tilefni dagsins

Blóðgjafar eru sérstaklega hvattir til að mæta í Blóðbankann að Snorrabraut 60 eða á 2.hæðina að Glerártorgi Akureyri í dag á þessum alþjóðlega blóðgjafardegi og láta gott af sér leiða. Boðið er uppá sérstaklega góðar veitingar í
tilefni dagsins. Best er að panta tíma í blóðgjöf með því hringja í síma 543 5500 (Reykjavík)
eða 543 5560 (Akureyri). Einnig er hægt að bóka tíma á www.blodbankinn.is.

Deila