Alvöru útihátíð á Bakkafirði

Alvöru útihátíð á Bakkafirði

N4 ritstjórn20.06.2022

Um næstu helgi verður sólstöðunum víða fagnað með sumarhátíðum. Á Bakkafirði verður blásið til hátíðar á tjaldstæðinu þar sem séð verður til þess að enginn fari snemma í háttinnþ Frítt er inn á hátíðina. 

Sumarhátíðin Bakkafest á Bakkafirði var haldin í fyrsta skipti í fyrra, en hugmyndin varð til fyrir tveimur árum. Í fyrra mættu um 300 manns á hátíðina,  og fór hátíðin langt fram úr öllum væntingum.  Við bara tvöfölduðum allt, tvöfölduðum tónlistaratriðin, tvöfölduðum stærðina á tjöldunum og erum bara að vonast til þess að sjá tvöfaldan mannfjölda líka," segir Þórir Örn Jónsson um hátíðina í ár, en hann stendur að hátíðinni ásamt fleirum. 

 

 

Tónlist, folf og fleira

Þórir segir að það verði nóg um að vera á hátíðinni og séð til þess að engum muni leiðast né fari snemma í háttinn. Hátíðin verður sett á föstudagskvöldinu en þá koma þeir Svenni Þór og Benni Brynleifs og halda uppi stuðinu fram á kvöld. Síðan tekur Einar Höllu við af þeim og sér um að nóttin verði endalaus. Á laugardagskvöldið hitar Einar Ágúst upp og síðan mætir sveitaballshljómsveitin Færibandið og heldur stuðinu gangandi inn í nóttina.  Þá verður Folf mót, fótboltamót og boðið upp á sögu/bjórferð í Digranesvita og ýmislegt fleira. Veitingastaður NorthEast verður opinn milli kl. 12-20 alla daga, og þá verður bar og veitingasala á tjaldsvæðinu þar sem hátiðin verður haldin. Nóg pláss er á tjaldsvæðinu, en takmarkað pláss í rafmagn og ekki hægt að taka frá pláss. Frítt er inn á viðburðinn. 

 

Þórir Örn sagði nánar frá hátíðinni í Föstudagsþættinum á N4 og má sjá viðtalið við hann í heild sinni hér fyrir neðan. 

 

Deila