miðvikudagur 29. desember 2021

Ásýnd Bakkafjarðar allt önnur

Ásýnd Bakkafjarðar allt önnur
Með vegframkvæmdum á Langanesvegi er orðið auðveldara að ferðast til Bakkafjarðar sem opnar tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila.

N4 ritstjórn09.01.2022

Bakkafjörður hóf þátttöku í byggðaþróunarverkefninu Brothættum byggðum fyrir tveimur árum en þá var staða þorpsins orðin mjög erfið. Margt hefur gerst á þessum tveimur árum, meðal annars er ásýnd staðarins orðin allt önnur.

„Ég held við getum sagt að það séu þrír meginþættir sem við erum að vinna með. Það eru auðvitað atvinnumálin. Þau skipta miklu en ásýnd staðarins og ímynd skiptir líka miklu máli og svo líka mannlífið. Við erum alltaf að vinna með alla þessa þrjá þætti og í eðli sínu eru alltaf að koma saman ríki, sveitarfélag og íbúar. Þetta er samvinnuverkefni þar sem þessir aðilar verða að koma saman," segir Gunnar Már Gunnarsson, verkefnastjóri Betri Bakkafjarðar, sem var í viðtali í þættinum Að norðan, en samhent átak ríkis, sveitarfélags og íbúa hefur gert framtíð Bakkafjarðar mun bjartari nú en áður.

Betri vegur breytir öllu

Í þættinum kom fram að búið er að endurnýja ytra byrði margra húsa í þorpinu sem gefur staðnum allt annað yfirbragð. „Íbúar á Bakkafirði hafa verið að sækja í ýmsa sjóði til þess að fegra umhverfið á Bakkafirði. Það er hægt að sækja í sjóði m.a. til að einangra húsin því við erum ekki á heitu svæði hér og rafmagnið er dýrt. Við sjáum heldur betur mun á ásýnd staðarins." Aðspurður um atvinnumálin segir Gunnar að þegar verkefnið hófst árið 2019 kom aukinn byggðakvóti til Bakkafjarðar. „Það gefur fiskvinnslufyrirtækjunum, sem eru tvö hérna, tækifæri á að byggja sig upp en útgerðaraðilar, minni og stærri, geta líka sótt hér fram. Þegar byggðir hafa verið skilgreindar sem brothættar byggðir þá er hægt að sækja í lán hjá Byggðastofnun og reyna að byggja upp sína starfsemi hér. Við erum svo sannarlega nálægt fiskimiðunum. Bakkafjörður er þekktur fyrir það og þá sérstaklega í strandveiðunum, hér er auðvelt að sækja fyrir minni báta." Þá segir Gunnar að íbúar á Bakkafirði sjái líka tækifærin í ferðaþjónustunni en betri vegur um Langanesströnd skapar aukin tækifæri á því sviði. „Þetta svæði þar sem Norðurland og Austurland mætast er svæði sem margur Íslendingurinn hefur ekki komið á og um að gera að breyta því," segir Gunnar.