Bangsaspítali opnar á Akureyri

Bangsaspítali opnar á Akureyri
Öllum börn­um ásamt for­eldr­um eða for­ráðamönn­um er boðið að koma með veika eða slasaða bangsa á 5. hæð á Heilsugæslunni á Akureyri milli klukk­an 10 og 16.

N4 ritstjórn16.09.2022

Bangaspítali opnar í fyrsta sinn á Akureyri þann 17. september á Heilsugæslunni á Akureyri. Þangað geta veikir bangsar og dúkkur leitað eftir læknisaðstoð. 

Lýðheilsufélag læknanema hefur í rúm 10 ár staðið reglulega fyrir Bangsaspítala á höfuðborgarsvæðinu en þá geta börn komið með lasna eða slasaða bangsa og fengið bangsalæknir til að skoða þá. Markmiðið með verkefninu er tvíþætt. Annars vegar að draga úr hræðslu barna við lækna og heilbrigðisgeirann og hins vegar að veita læknanemum tækifæri til að æfa samskipti við börn.

 

Á laugardaginn kemur Bangsaspítinn á  Heilsugæsluna á Akureyri  í fyrsta sinn en sjá má nánari upplýsingar inn á Facebook síðu Lýðheilsufélags læknanema.    Heim­sókn­in fer þannig fram að hvert barn kem­ur með sinn eig­in bangsa milli kl. 10 og 16 á heilsugæslustöðina.  Gott er að ræða fyr­ir­fram við barnið um það hvernig bangs­inn sé veik­ur (hvort hann sé t.d. með háls­bólgu, magapest eða brot­inn fót). Þegar á heilsu­gæsl­una er komið fær barnið að inn­rita bangs­ann og að því loknu kem­ur bangsa­lækn­ir og vís­ar barn­inu inn á lækna­stofu þar sem lækn­ir­inn skoðar bangs­ann og veit­ir hon­um þá aðhlynn­ingu sem hann þarf á að halda.

 

 

Deila