Skiptu þér af! Afskiptaleysi getur verið dýrkeypt

Skiptu þér af! Afskiptaleysi getur verið dýrkeypt
Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er viðkvæmur málaflokkur. Mörgum finnst óþægilegt að skipta sér af þó grunsemdir séu um að eitthvað misjafnt sé í gangi. Barnaheill hvetur fólk til þess að standa saman vörð um börnin og hvetur alla til að skipta sér af enda getur afskiptaleysið verið dýrkeypt. Mynd: Kat J /Unsplash.com

N4 ritstjórn03.05.2021

„Við viljum að allir hinir skipti sér af, ekki bara þeir sem koma beint að málinu. Það eru aðalskilaboðin í ár," segir Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri landssöfnunar Barnaheilla sem í ár ber heitið Staldraðu við. Söfnunin hefur staðið yfir undanfarinn mánuð og er átakinu ætlað að vekja athygli fólks á kynferðisofbeldi gagnvart börnum.

Í dag lýkur landssöfnun Barnaheilla en eins og undanfarin 12 ár þá er átakinu ætlað að vekja athygli fólks á kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Um allt land hefur sölufólk verið að selja lítil ljós en ágóði sölunnar rennur beint í forvarnarverkefni Barnaheilla. Guðrún Helga vakti athygli á landssöfnunni í Föstudagsþættinum á N4. Þar hvatti Guðrún fólk til þess að vera óhrætt við að skipta sér af ef það vissi af börnum sem líður illa og ef fólk hefði einhvern grun um að eitthvað misjafnt væri í gangi.

Berum öll hag barna fyrir brjósti

Sagði Guðrún að fólk veigraði sér oft við því að skipta sér af en að hennar sögn ætti fólk frekar að hugsa út í það hversu lengi barn getur verið að jafna sig á afskiptaleysi. „Börnin þurfa á afskiptum okkar að halda því þau geta þetta ekki ein og jafnvel foreldrar og þeir sem standa næst börnum þurfa á okkur halda." Þá sagði Guðrún að í þeim tilfellum þegar um tilefnislausar áhyggjur sé að ræða. þá ættu allir foreldrar að vera ánægðir með það að einhver beri hag barnsins þeirra fyrir brjósti. „Ég er bara ánægð með það að samborgari minn vill ekki að eitthvað slæmt komi fyrir mitt barn."

Enn er hægt að styrkja landssöfnunina en eins og áður segir þá rennur allur ágóði hennar til forvarnarstarfs.