miðvikudagur 29. desember 2021

Dagur landsbyggðafyrirtækja á samfélagsmiðlum

Dagur landsbyggðafyrirtækja á samfélagsmiðlum
Mynd: Unsplash/Adem AY

N4 ritstjórn11.01.2022

Þann 19. janúar verður Dagur landsbyggðafyrirtækja, "#ruralbusiness day," haldinn. Markmiðið er að vekja athygli á þjónustu og vörum fyrirtækja á landsbyggðum á samfélagsmiðlum og geta allir þeir sem vilja vekja athygli á þjónustu landsbyggðafyrirtækja tekið þátt.

Digi2Market, sem er samstarfsverkefni fjögurra aðila frá Írlandi, Norður-Írlandi, Finnlandi og Íslandi, og vinnur að bættum möguleikum fyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landanna, stendur fyrir #ruralbusiness samfélagsmiðladegi þann 19. janúar 2022. Markmiðið er að vekja athygli á því fólki, þjónustu og vörum fyrirtækja í landsbyggðunum, sem eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. Aðstandendur átaksins vilja ná eins mörgum með og mögulega er hægt á Íslandi, Írlandi, Finnlandi, um alla Evrópu og víðar til að deila efni með #landsbyggdafyrirtaeki eða #ruralbusiness.

Aðstoð við að kynna landsbyggðafyrirtæki

Átakið er hugsað sem aðstoð við fyrirtæki í landsbyggðunum til að vaxa, styrkja viðskiptatengsl þeirra út um Evrópu og allan heim og kynna þau á sem breiðustum alþjóðlegum vettvangi. Lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum eru mikilvæg svæðisbundnum hagkerfum og samfélögunum sem þau starfa í. En frumkvöðlarnir á bak við fyrirtækin upplifa sig oft einangraða og skynja erfiðleika við að komast inn á stærri markaði. Digi2Market tengir þau við tengslanet á netinu og hjálpar þeim við að auka markaðshlutdeild sína og vaxa.

Segðu frá uppáhalds fyrirtækinu þínu

Allir geta tekið þátt í átakinu, fyrirtækjaeigendur, starfsfólk, vinir, fjölskylda, íþróttafélög, samtök, einstaklingar sem eiga viðskipti við fyrirtæki í landsbyggðunum, áhrifavaldar og í rauninni bara hver sem er, sem vill styðja við rekstur í landsbyggðunum. Til dæmis getur fólk sagt frá uppáhalds fyrirtækinu í sinniheimabyggð og hvað það er sem er svo frábært við það/þau. Með því að deila þinni upplifun á samfélagsmiðlum sýnir þú þeim stuðning. Þá geta eigendur fyritækja deilt einhverju um starfssemi síns fyrirtækis og einhverju um fólkið á bak við fyrirtækið. Hvað er það búið að vera lengi í rekstri? Af hverju er gott/gaman að vinna hjá þessu fyrirtæki? Gerir fyrirtækið eitthvað fyrir samfélagið?