Nýtt á Vopnafirði: Danslistarskóli opnaður

Nýtt á Vopnafirði: Danslistarskóli opnaður
Nú hafa Vopnfirðingar enga afsökun fyrir því að dansa ekki. Mynd: Facebooksíða Valkyrja Danslistarskóli

N4 ritstjórn30.04.2021

Í byrjun árs opnaði danslistarskóli á Vopnafirði sem ber heitið Valkyrja. Það er dansarinn Urður Steinunn Önnudóttir Sahr sem stendur á bak við skólann en hún lét ekki dansskólaleysi á staðnum stoppa sig þegar hún ákvað að flytjast búferlum til Vopnafjarðar heldur tók málin í eigin hendur.

„Mér finnst rosalega gaman að kenna dans og þá finnst mér sérstaklega gaman að fá nemendur sem eru tilbúnir að leggja eitthvað á sig og ná framförum," segir Urður Steinunn sem stofnaði danslistarkólann Valkyrju í ársbyrjun. Sterk hefð er fyrir blaki og fótbolta á Vopnafirði svo Unnur vissi ekkert hvort dansinn fengi góðar viðtökur í bæjarfélaginu. „Á tímabili var ég hrædd um að enginn myndi skrá sig, " segir Urður sem var í viðtali í þættinum Að Austan á N4.

Fullorðna fólkið feimið

Það varð þó ekki raunin, mikill áhugi hefur verið fyrir dansnáminu og kennir Urður nú stórum hópi krakka á grunnskólaaldri en kennslan fer fram í félagsheimilinu Miklagarði. Þá er hún með leikskólahóp og hóp fyrir fullorðna. Sá hópur mætti reyndar vera stærri að hennar sögn en fullorðna fólkið virðist eitthvað tregt við dansinn. Að auki kennir Urður svo eldri borgurum líka dans en ekki á vegum dansskólans. Að sögn Urðar gengur dansinn út á jafnvægi og samhæfingu sem er góður grunnur fyir hvaða íþrótt sem er. Þá eykur dansinn liðleika og kennir fólki inn á líkamann og eykur líkamsvitund. Eitthvað sem allir hafa gott af.