N4 logo

Dýrið á leið í bíó

Dýrið á leið í bíó
Margir bíða spenntir eftir sýningu íslensku kvikmyndarinnar Dýrið.

N4 ritstjórn20.09.2021

Sýningar á kvikmyndinni Dýrinu hefjast í íslenskum kvikmyndahúsum í vikunni. Kvikmyndin vann til frumleikaverðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes í sumar og hefur hlotið mikið lof víða um heim.

Kvikmyndin Dýrið fjallar í stuttu máli um hjónin Maríu (Noomi Rapace) og Ingvar (Hilmir Snær Guðnason) sem eru sauðfjárbændum í afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Myndin var tekin upp í Hörgárdal árið 2019 en mikil leit hafði þá staðið yfir að réttu staðsetningunni.

Rétti bóndabærinn fannst í Hörgárdal

„Við vorum með ákveðið hús í huga og ég held við höfum verið búin að keyra tvisvar sinnum í kringum landið og eignlega búin að skoða hvern einasta bæ á landinu. Það voru líka allir að hjálpa okkur að leita. Svo sendi bróðir minn mér myndir af einum bæ sem hann hafði rekist á og við fórum og skoðuðum hann. Hann heitir Flaga í Hörgárdal. Okkur leist vel á hann þó bærinn væri allt öðruvísi en bærinn sem okkur hafði langað til þess að finna, en Flaga bauð upp á svo mikið og svo er líka svo ótrúlega fallegt þarna í kring," segir Valdimar Jóhannsson, leikstjóri og annar handritshöfundur myndarinnar, sem var í viðtali í Föstudagsþættinum á N4.

Þakklátur fyrir móttökurnar

Þetta er fyrsta kvikmynd Valdimars og því voru verðlaunin í Cannes bæði góð viðurkenning og hvatning til frekari dáða en hann játar að vera nú þegar farinn að huga að sinni næstu mynd, þó þau plön séu stutt á veg komin. „Við erum ótrúlega þakklát og þetta var allt hálf ótrúlegt,"segir Valdimar en viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Á Akureyri er kvikmyndin væntanleg í Borgarbíó þann 25. september og í Laugarásbíó í Reykjavík þann 24. september