Dýrmætast að líða vel andlega

Dýrmætast að líða vel andlega

N4 ritstjórn13.09.2022

Leikkonan Birna Pétursdóttir nemur þjóðfræði samhliða leiklistinni. Hún segir eitt mikilvægasta verkefnið  í lífinu sé að passa upp á andlegu heilsuna sem hún gerir með því að hreyfa sig daglega.  

Birna var gestur í þættinum Kvöldkaffi á N4 og þar ræddu þær Rakel þáttastjórnandi ýmislegt, meðal annars hvernig Birna hleður batteríin og passar upp á sjálfa sig.   Mér finnst rosalega gott að vera ein og ég reyni að hreyfa mig á hverjum einasta degi og það er ekki drifið áfram af, eins og það var kannski þegar ég var aðeins yngri, að verða mjó. Heldur bara frekar til að hreinsa hugann og líða vel andlega. Í seinni tíð hef ég fundið að það er eitt það dýrmætasta, þó það sé búið að tyggja það ofan í mann í milljón ár, þá er það satt. Það er ástæða fyrir því að allir eru að tala um þetta."

 

Nauðsynlegt að taka ábyrgð 

Þá sagði Birna líka að partur af lífinu væri að takast á við gamla djöfla og að allir hefðu örugglega gott af því  að gera það.  Maður þarf líka svolítið að taka ábyrgð á andlegu hliðinni sjálfur, það þýðir ekkert bara að hlaupa til læknis og reyna að redda því eftir á. Ég held maður verði svolítið jafn óðum að taka ábyrgð," sagði Birna m.a. í þættinum. Þá sagðist hún nota áfengi í hófi. Ég reyni að gera hluti sem láta  mér líða vel til lengri tíma sem er þá það að reyna að borða sæmilega og svoleiðis, en samt ekki úr hófi, og aldrei á forsendum einhvers annars, sem segir mér hvernig ég eigi að líta út. Og það er erfitt því það áreiti er alls staðar. Og ég þarf alveg að minna mig á það."

 

Viðtalið við Birnu í heild sinni má sjá hér fyrir neðan og í Sjónvarpi Símans.

 

 

Deila