Eini vesenisfræðingur landsins

Eini vesenisfræðingur landsins

N4 ritstjórn25.05.2022

Elmar Snorrason er ekki við eina fjölina felldur.  Hann er húsasmiður en er titlaður vesenisfræðingur í símaskránni, enda stendur hann í alls konar veseni á borð við innflutning á jeppafelgum, myndavélum og veðurstöðvum.  Þá streymir hann beint á netinu myndum frá þrastarhreiðri á landareign sinni. 

Ég hef verið svona frá blautu barnsbeini og kallaður vesenisfræðingur af mínu fólki. Mér fannst sniðugt að setja þetta heiti inn á ja.is. Vesenisfræðingur gerir alls konar vitleysu sem honum dettur í hug í það og það skiptið ," segir Elmar sem býr að Leirá í Hvalfjarðarsveit.  Elmar segir að sem barn hafi hann alltaf verið eitthvað að brasa og sköpunargleðin fékk að njóta sín til ýmissa verka. Seinna fór hann  og lærði trésmíði sem hann hafði starfað við nokkur ár á undan. 

 

Með 10 metra rennibraut í garðinum

Ekkert virðist vera of mikið vesen fyrir Elmar. Sem dæmi þá var honum boðið í hestaferð þegar hann var liðlega tvítugur yfir Arnarvatnsheiði. Hann átti hvorki hest né jeppa í ferðina en smíðaði sér þá bara torfærubíl og fór á honum. Þá er Elmar og fjölskylda með 10 metra rennibraut í garðinum hjá sér sem endar í lítilli sundlaug. Það helgast af því að ég vinn upp á Húsafelli og þar voru áherslubreytingar í sundlauginni. Rennibrautin þar var komin á tíma viðhaldslega séð og það var ákveðið að láta hana víkja, og ég lenti í því að fá hana heim til mín." Elmar segir að dóttir hans, sem er 11 ára gömul, hafi mjög gaman af rennibrautum og því var spennandi fyrir hana að fá rennibraut í garðinn. 

 

Bein útsending úr þrastarhreiðri

Að sögn Elmars var aðeins meira vesen en hann hafði séð fyrir að  koma rennibrautinni upp, en það tókst, dótturinni til ómældrar gleði. Þó er smá vesen með rennibrautina núna. Þrastarpar hefur nefnilega komið sér upp hreiðri undir rennibrautinni og er ekki ýkja hrifið af því að verið sé að nota hana þegar þau eru að reyna að ala þar upp unga. Elmar kom upp vefmyndavél við hreiðrið og streymir lífinu í hreiðrinu beint á netið en útsendingin hefur vakið nokkra athygli.  Sjá nánar á ellisnorra.is.  

 

Elmar sagði frá fleira veseni í þættinum Að vestan en þáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

 

 

 

 

 

Deila