N4 logo

Ekki sammála því að setja 33% landsins undir hálendisþjóðgarð

 Ekki sammála því að setja  33% landsins undir hálendisþjóðgarð
Ingibjörg Isaksen skipar efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

N4 ritstjórn16.09.2021

„Ég vil sjá kerfisbreytingar í málefnum eldri borgara. Framsókn hefur leitt miklar kerfisbreytingar í málefnum barna, Ásmundur Einar hefur fylgt því eftir sem barna- og félagsmálaráðherra. Við þurfum að nýta þá reynslu og þekkingu sem hefur skapast í tengslum við þetta, við að samþætta kerfið. Fá alla aðila að borðinu sem eru að veita þjónustu til eldra fólks og samþætta hlutina, þannig að við losnum við þessi gráu svæði og sóun í kerfinu og náum að skapa umhverfi þannig að hvert þjónustustig taki hnökralaust við af öðru. Við viljum einnig veita betri þjónustu heim til fólksins. Við sjáum það að 98% eldra fólks vilja búa heima hjá sér. Ég sé fyrir meiri heimaþjónustu. En við megum þó ekki gleyma því að það er verið að veita mjög góða þjónustu í þessu kerfi á mörgum stöðum. En ég held að við getum gert betur með því að samþætta þetta. Af því fjármagni sem er að fara til öldrunarþjónustu skilst mér að tveir þriðju fari til öldrunarheimila og einn þriðji til heimaþjónustu. Ég vil snúa þessu við. Ég vil sjá að við séum að hlúa að einstaklingnum og setjum hann í fyrsta sæti og þjónustan fari í hann frekar en í steinsteypu,“ segir Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í tengslum við umræðuna um orkuskipti hefur Ingibjörg lagt á það áherslu að nýta þurfi græna, innlenda orku. „Ég er ekki að tala um að virkja virkjananna vegna, heldur eigum við að nýta þá orku sem til er í kerfinu í dag og ef við þurfum meira getum við farið í það að virkja. Við erum með vatnsafl, jarðvarmann og vindorkuna sem fleygir mjög hratt áfram í tækni. Við eigum bara að skoða hvað er hagkvæmast og skynsamlegast að gera í tengslum við þetta. Það sem mér finnst skjóta skökku við og ekki fara saman hljóð og mynd eru tillögurnar sem voru lagðar fram um hálendisþjóðgarð. Orkuríkasta svæðið er hálendið okkar og það er ekki enn búið að kanna hvernig við ætlum að afla þeirrar orku sem þarf í orkuskiptin. Ég sé ekki að hægt sé að fylgja því máli eftir fyrr en við erum búin að finna út annars vegar hversu mikla orku við erum að útiloka með því að fara þá leið að samþykkja hálendisþjóðgarð og hins vegar hvernig við ætlum að afla orku annars staðar. Ég er sannfærð um að vernd og nýting getur farið saman. Ég tel við eigum að ganga vel um landið okkar og vernda viss svæði. En ég er ekki sammála því að það eigi að vernda 33% af landinu,“ segir Ingibjörg Isaksen.

Hér er viðtalið við Ingibjörgu.