N4 logo

Enginn feluleikur í nýju bakarí

Enginn feluleikur í nýju bakarí
Í Brauðgerðarhúsi Akureyrar sjá viðskiptavinirnir bakarana að störfum og brauðmetið verða til.

N4 ritstjórn14.10.2021

Brauðgerðarhús Akureyrar opnaði í Sunnuhlíð í lok ágúst og hafa viðtökurnar verið framar öllum vonum. Opið er inn í eldhús í bakaríinu og viðskiptavinir geta því fylgst með bökurunum að störfum.

„Viðtökurnar hafa verið alveg skelfilega góðar, það verður að segjast, langt umfram okkar björtustu vonir. Við erum mjög sáttir," segir bakarinn Andri Kristjánsson sem opnaði Brauðgerðarhús Akureyrar í lok ágúst ásamt Örvari Gunnarsyni í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Hin bakaríin á Akureyri eru öll hinu megin við Glerána og segir Andri að þau hafi verið að gera fínustu hluti en gaman samt að sjá hvað fólk bregst vel við þegar eitthvað nýtt og ferskt kemur í bæinn.

Viðskiptavinir sjá hvað er að gerast

Að sögn Andra er mikil áhersla lögð á súrdeig í bakaríinu og þá hefur hið opna eldhús líka fallið vel í kramið hjá viðskiptavinum. „Framleiðslan hjá okkur er öll opin þannig að viðskiptavinurinn fær tækifæri til að sjá hvað er að gerast hérna, það er enginn feluleikur með neitt. Það er það skemmtilega með þetta held ég," segir Andri sem er mjög bjartsýnn á framtíðina.

Viðtalið við Andra má sjá í heild sinni hér fyrir neðan en í myndbandinu er einnig rætt við fleiri rekstraraðila í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð.