Karl Eskil Pálsson23.02.2021
Við verðum mjög vör við ákveðinn áhuga erlendra fjárfesta,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar um byggingu koltrefjaverksmiðju í Skagafirði. Verði slík verksmiðja að veruleika er líklegt að nokkrir tugir nýrra starfa skapist í Skagafirði.
Sigfús Ingi er gestur Karls Eskils Pálssonar í þættinum Landsbyggðum á N4 nk. fimmtudagskvöld, þar sem meðal annars er rætt um koltrefjaverksmiðju í Skagafirði.
Viljayfirlýsingin mikilvæg
„Horfurnar eru ágætar og við höfum undirbúið jarðveginn nokkuð vel, svo sem varðandi staðsetningu verksmiðjunnar og fleira,“ segir Sigfús Ingi.
Á síðasta ári skrifuðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigfús Ingi undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði en heimamenn hafa unnið að slíkri verksmiðju í um tólf ár.
„Það var mikilvægt að hafa þessa viljayfirlýsingu frá stjórnvöldum,“ segir Sigfús Ingi viðtalinu.
Landsbyggðir er á dagskrá N4 nk. fimmtudagskvöld, klukkan 20:30