Erró kominn norður - Safnar póstkortum og notar í klippimyndir

Erró kominn norður - Safnar póstkortum og notar í klippimyndir
Erró hefur ferðast út um allan heim og sýningin á verkum hans á Akureyri er innblásin af þessum ferðalögum. Mynd: Frá Listasafninu á Akureyri

N4 ritstjórn01.05.2021

Ferðagarpurinn Erró er heitið á nýrri sýningu sem opnar í Listasafninu á Akureyri í dag. Þar eru sýnd verk eftir listamanninn Erró sem ferðast hefur vítt og breytt um heiminn til að sækja sér innblástur og póstkort í verk sín. Á sýningunni sem stendur til 12. september má sjá verk sem tengjast ferðalögum hans.

Þetta er í þriðja sinn á 28 starfsárum Listasafnsins á Akureyri sem sett er upp sýning í safninu á verkum Errós. Það er Danielle Kvaran sem er sýningarstjóri og koma öll verkin frá Listasafni Reykjavíkur. Erró verður 90 ára á næsta ári og er Listasafn Reykjavíkur með stóra sýningu í undirbúningi erlendis af því tilefni. Sýningin á Akureyri er því einskonar upphitun fyrir afmælissýninguna.

Safnar póstkortum í klippimyndir

Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri var í viðtali um sýninguna í Föstudagsþættinum á N4 og þar sagði hann meðal annars þetta um ferðagarpinn Erró; „Líf Errós einkennist svolítið af ferðalögum. Hann lærði á Íslandi og út í Osló og síðan á tveimur stöðum á Ítalíu. Síðan ákvað hann að setjast að í París en hefur líka verið búsettur í Tælandi og á Formentera á Spáni, auk þess sem hann kemur mjög oft til Íslands og er með annan fótinn hér. En aðalheimili hans og vinnustofa er í París. " Þá fór Erró í heimsreisu á áttunda áratugnum og hefur mikið skoðað myndlist og mannlíf í öðrum löndum. Hvert sem hann fer sankar hann að sér póstkortum og nýtir þau í klippimyndir sem síðar verða að stórum málverkum, eins og sjá má á sýningunni í Listasafnins á Akureyri.