Veljum fjölbreytta ferðamáta í Evrópsku samgönguvikunni

Veljum fjölbreytta ferðamáta í Evrópsku samgönguvikunni

N4 ritstjórn13.09.2022

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. 

 

Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Yfirskrift Samgönguviku  er  Veljum fjölbreytta ferðamáta og þema ársins 2022 er Virkari samgöngur

 

Vígsla á Akureyri á tvíbreiðum stíg

Höfuðborgarsvæðið verður með mikla dagskrá og við ætlum að líka að taka þátt. Akureyrarbær hefur tekið þátt í 10 ár og það á m.a. að vígja veglega stíginn við Hlíðarbrautina, sem er ein mesta framför í samgöngum á Akureyri segi ég. Þarna er þá búið að skilja að þennan ólíka hraða. Þar ertu með ganganda; fólk með barnavagna, hunda, göngugrind, börn að labba á kannski 5-10 km hraða. Síðan koma hraðari samgöngur sem eru þá hlaupahjólin, rafhjólin og jafnvel hlauparar eða frá 10-25 km hraði. Svo koma bílarnir sem eru þá á 25-50 km hraða. Þessir ólíku samgöngumátar þeir eiga bara ekkert samleið og með svona stofnbrautum þar sem hraðinn er mikill og fólk vill komast á milli staða þá held ég að þetta sé mjög flott. Við sjáum svona samgöngumannvirki út um alla Evrópu," segir Guðmundur Haukur Sigurðsson hjá Vistorku. Hann segir að fleiri svona stígar séu fyrirhugaðir á Akureyri og nefnir t.d. að fyrirhugað sé að gera svona stíg að Skógarböðunum. Norðan við brúna þá verður sem sagt aðskilinn göngu og hjólastígur. Það er í bígerð og búið að auglýsa í deiliskipulagi."

 

Flestir samgöngumátar rafvæddir

Samgönguvikan endar á bíllausa deginum og eru fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hvött til að deila viðburðum í tengslum við vikuna á samfélagsmiðlum sem og öðrum jákvæðum upplifunum í tengslum við fjölbreytta ferðamáta. Guðmundur Haukur, sem var gestur í Föstudagsþættinum á N4,  segir að margt spennandi sé að gerast í tengslum við samgöngur og rafmagn.  Við erum komin með rafmagn í nánast allar samgöngur; hjólin, bílana, rútur og ferju til Vestmannaeyja. Og forsetinn og forsetisráðherra búin að fara í flug á rafflugvél þannig þetta er allt að gerast."

 

Guðmundur Haukur sagði nánar frá viðburðum tengdum samgönguvikunni á Akureyri. Viðtalið við hann sem byrjar á mínútu 3.35 má sjá í heild sinni hér fyrir neðan eða á Sjónvarpi Símans. 

 

Deila