Ein fallegasta sundlaug landsins lokuð

Ein fallegasta sundlaug landsins lokuð
Stílhrein hönnun og stórbrotið landslag einkenna sundlaugina á Hofsósi sem er iðulega á topp 10 listum yfir fallegustu sundlaugar landsins.

N4 ritstjórn08.04.2021

Einni fallegustu sundlaug landsins, sundlauginni á Hofsósi, hefur verið lokað tímabundið. Ástæðan er viðhald og er ekki gert ráð fyrir að laugin opni fyrr en 17.maí.

Í sundlauginni á Hofsósi fer saman stílhrein hönnun og stórbrotið landslag sem gerir laugina að einni af fallegustu laugum landsins. Frá því um miðjan mars hefur laugin hins vegar verið lokuð vegna viðhaldsframkvæmda og er reiknað með því að þær standi til 17. maí. Sundlaugarnar á Sauðárkróki og í Varmahlíð eru hins vegar opnar.

Vinsæl sundlaug

Frá því að laugin opnaði árið 2010 þá hefur hún trekkt að bæði íslenska og erlenda ferðamenn og á sumrin er laugin það vinsæl að heimamenn komast varla þar að. Síðasta vor átti laugin 10 ára afmæli og að því tilefni heimsótti N4 laugina og má sjá það innslag hér fyrir neðan en þar eru m.a. vinsældir laugarinnar til umræðu.