N4 logo

Fékk frábæra fjórhjóla hugmynd á Grikklandi

Fékk frábæra fjórhjóla hugmynd á Grikklandi
Á fjórhjólum á Botnsheiði. Mynd: ATV

N4 ritstjórn14.09.2021

Eftir að Gunnar Sæmundsson fór í fjórhjólatúr á grísku eyjunni Krít áttaði hann sig á því að það vantaði álíka fjöruga afþreyingu á Ísafjörð. Hann gat ekki hætt að hugsa um gríska fjórhjólatúrinn eftir að heim var komið og úr varð að hann og eiginkonan opnuðuð fyrirtækið ATV Ísafjörður.

„Við eigum svo mikið af gömlum vegum, gömlu leiðirnar á milli fjarðanna sem voru notaðar áður en göngin komu og endalausir fjölbreyttir slóðar. Við getum farið upp á fjöll, niður í fjöru, inn í skóg, það er allt hægt," segir Gunnar sem var í viðtali í þættinum Að vestan Vestfirðir. Þar kom fram að fjórhjólin eru kjörin náttúruupplifun fyrir þá sem annars fara ekki í gönguferðir eða hjólreiðar. „Ég er að fara með fólk sem er að koma af skemmtiferðarskipunum yfir áttrætt og það bara yngist upp um 50 ár því þetta er rosalega gaman. Fólk fær náttúruupplifunina og fullt af súrefni og sér mikið á stuttum tíma."

Stígandi gangur í rekstrinum

Gunnar byrjaði að stússast í þessu, eins og hann orðar það, árið 2016. Þá byrjaði hann að skoða leiðir í kringum Ísafjörð, fékk sér nokkur hjól og fór með vini og kunningja í ferðir til að fá endurgjöf á hugmyndina. Fyrirtækið ATV Ísafjörður var svo formlega opnað árið 2017. „Fyrsta sumarið var allt í lagi, þetta rak sig alveg en ekkert meir en það. Síðan hefur þetta bara verið stígandi. Þetta er að spyrjast út og er að komast inn í skemmtiferðarskipin og Íslendingarnir sem ég hef farið með eru mjög ánægðir."

Útsýni á Grænland

Gunnar segir að ferðirnar henti öllum því það sé mjög einfalt að keyra fjórhjólin. Fólk þarf þó að hafa ökuskírteini en annars þarf bara huga um bensínið og bremsuna. „Þetta eru mjúk og þægileg hjól að keyra." Algengasti túrinn hjá ATV Ísafjörður tekur um tvo tíma. „Þá keyrum við gegnum bæinn, aðeins inn í fjörð og niður í fjöruna. Svo förum við gömlu leiðina á milli Önundarfjarðar og Ísafjarðar. Yfir fjöllin og upp á Breiðadalsheiði. Förum svo alveg upp á Þverfjall. Þar erum við komin í 900 m hæð og á góðum degi þá sér maður bara yfir alla Vestfirði, Drangajökul og svo sjá sumir til Grænlands líka, þeir sem sjá vel."