Vill ekki stinga á kýli

Vill ekki stinga á kýli
Héraðsfréttablaðið Feykir er samfélagsspegill sem er bæði fróðlegur og skemmtilegur. Blaðið fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Ritstjóri blaðsins er Páll Friðriksson.

N4 ritstjórn02.05.2021

Héraðsfréttablaðið Feykir á Sauðárkróki fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Blaðið er gefið út í 900 eintökum og eru áskrifendur um 750 talsins. 10 manns hafa ritstýrt blaðinu í gegnum tíðina en núverandi ritstjóri, Páll Friðriksson, hefur ritstýrt því tvisvar. Hann segir blaðið verða að vera bæði fróðlegt og skemmtilegt en hlutverk þess sé ekki að stinga á kýli.

Lesendahópur Feykis er breiður þannig að efni miðilsins þarf að vera fjölbreytt að sögn ritstjórans. „Maður þarf að hafa íþróttir, fréttir náttúrulega af pólitíkinni og öðru. Hesta. Þetta þarf að vera bæði fróðlegt og skemmtilegt," segir Páll sem var í viðtali í þættinum Að norðan ásamt fleiri starfsmönnum Feykis. Þar var Páll m.a. spurður að því hvort Feykir sé nógu beittur og gagnrýninn. „Það er búið að prófa það í nokkur skipti á þessum árum. Maður er oft gagnrýndur fyrir það að vera ekki nógu beittur en ég held það sé kannski ekki hlutverk héraðsfréttamiðils að stinga á einhver kýli. Við erum svo nátengd fólkinu og ef þú ert með eitthvað sem er óvægið þá ertu kannski kominn með fólkið, samfélagið upp á móti þér og þá á miðillinn ekkert líf framundan," segir Páll.

Breyttir tímar

Stofnfélagar Feykis voru 26 talsins og fyrstu sex árin var blaðið prentað hjá Dagsprent á Akureyri. Síðar, þegar prentvél kom á Sauðárkrók, tók Guðni Friðriksson prentari hjá Nýprent við prentun blaðsins. Guðni hefur prentað hvert einasta eintak af blaðinu síðan 1987. „Ég er að prenta þetta ennþá. Að vísu hefur tæknin breyst alveg ofboðslega. Fyrstu setningartölvurnar voru mjög ófullkomnar miðað við það sem er í dag. Þær keyrðu allt letur úr á strimlum sem var límt niður á arkir. Þetta var svo myndað og filman sett á plötur. Núna er þetta allt gert í tölvunni. Setningin, myndvinnslan og annað." Innslagið um Feyki má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.