Fjórir naglar orðnir samtals þrettán

Fjórir naglar orðnir samtals þrettán
Eigendur Fjögurra Nagla ehf. Röð á mynd, Þórarinn Árni (Tóti) Sigurður Kristinn (Diddi) Hróbjartur Heiðar (Hrói) Jón Ófeigur (Jón)

N4 ritstjórn14.09.2022

Byggingarfyrirtækið Fjórir naglar var stofnað í október árið 2020 af fjórum nöglum í Rangárþingi ytra. Á tveimur árum hefur fyrirtækið aldeilis dafnað því starfsmenn fyrirtækisins eru nú orðnir þrettán talsins. 

Við erum núna tveggja ára gamalt fyrirtæki. Í staðinn fyrir að vera að vinna sem einstaklingar ákváðum við að vinna saman til að geta tekist á við stærri verkefni," segir Hróbjartur Heiðar Ómarsson, húsasmiður um tilurð fyritækisins.  Fyrirtækið fæst við allt sem tengist húsasmíði og eru verkefnin mjög fjölbreytt og nóg að gera.  Allt frá því að steypa upp hús eða skipta um glugga eða parketleggja. Og hérna út í sveit þá tekur maður líka að sér að flísaleggja og bara allt sem þarf að gera," segir Hróbjartur en sjálfum finnst honum skemmtilegast að smíða úr timbrinu.

 

Stærri og stærri verkefni

Fyritækið hefur fengið mjög góðar viðtökur og gengið vel en verkefnin hafa verið á öllu Suðurlandi og einnig í Reykjavík. Við vorum fjórir sem stofnuðum þetta en eftir smá umhugsun þá réðum við til okkar okkar fyrsta starfsmann og síðasta árið hefur þetta vaxið í það að við erum orðnir 13 í dag sem vinnum hjá fyrirtækinu," segir Hrjóbjartur en auk hans eru eigendur fyrirtækisins Þórarinn Árni, Sigurður Kristinn og Jón Ófeigur. Við erum alltaf að taka að okkur stærri og stærri verkefni og þetta er bara búið að vaxa mjög hratt á þessum stutta tíma. Maður gerði sér ekki grein fyrir því að þetta myndi vaxa svona hratt," segir Hróbjartur. Aðspurður út í nafnið á fyrirtækinu þá segir hann að Jón hafi fundið upp á því. Við erum náttúrulega algjörir naglar og svo passar nafnið vel við smíðafyritæki."

 

Þátturinn Að sunnan á N4 heimsótti fyrirtækið á verkstað á Hellu og ræddi þar við Hróbjart, Sigurð Kristinn og Þórarinn Árna, en fjórði eigandinn Jón Ófeigur var fjarri góðu gamni. Viðtalið við naglana þrjá má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

 

Deila