miðvikudagur 29. desember 2021

Fleiri gleðistundir árið 2022

Fleiri gleðistundir árið 2022
Mynd: Catalin Pop/Unsplash

N4 ritstjórn15.01.2022

Það er eilífðarverkefni að rækta sjálfan sig. Aldrei kemur þessi tilfinning sterkari inn en um áramót og þá jafnvel með dassi af samviskubiti. Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Símey og markþjálfi hvetur fólk til þess að staldra við og meðvitað fjölga gleðistundunum í lífinu.

„Ég var alveg ein af þessum manneskjum sem bara fölnaði þegar ég heyrði orðið markmið og ég átti rosalega erfitt með þetta markmiðatal því yfirleitt snerist það um að ná af mér einhverjum aukakílóum og svo varð ég alltaf ógeðslega svekkt strax í mars, "segir Kristín Björk. Með auknum þroska fór hún að hugsa markmiðasetningu á annan hátt, sérstaklega eftir að hún fór í markþjálfaranám. „Þá lærir maður svolítið nýja hugsun, að fara inn á við og hugsa hvað skiptir mig raunverulega máli. Hvað í rauninni langar mig? Og þá fann ég að það voru kannski allt aðrir hlutir. Það er ekki endilega að fylla mann eldmóði að fara í megrun."

Hvað veitir þér raunverulega gleði?

Kristín ásamt, Ingunni Helgu Bjarnadóttur, sem er líka markþjálfi,standa í annað sinn fyrir námskeiðinu Að varða veginn fyrir þitt besta ár hjá Símey, Akureyri. Á námskeiðinu sem er netnámskeið er skoðað með hvaða hætti þátttakendur geta varðað leiðina fyrir árið 2022 svo að árið verði innihaldsríkt og gjöfult, uppfullt af ánægjulegum stundum og tækifærum sem hver og einn skapar sér. Námskeiðið er kennt á ZOOM í tveimur hlutum með viku millibili. Kristín segir mikilvægt að fólk taki meðvitaðar ákvarðanir og láti lífið ekki bara gerast. Nauðsynlegt er að staldra við og húkka sig ekki bara á rútínuna heldur hugsa út í það hvað gleðji mann raunverulega og reynda að fjölga gleðistundunum í lífinu, en oft eru það litlu hlutirnir sem gefa mest. „Lífið gerist, maður fer í vinnuna, kemur heim, horfir á sjónvarpið, eldar kvöldmat og eitthvað," segir Kristín sem sjálf leit í baksýnisspegilinn á sínum tíma og áttaði sig þá á því að hún hefði kannski ekki tekið svo margar meðvitaðar ákvarðanir varðandi ýmislegt í lífinu. „Það svolítið hreyfði við mér og þá langaði mig að fara að ákveða meira."

Kristín Björk var í viðtali í Föstudagsþættinum á N4 ásamt Guðrúnu Arngrímsdóttir eiganda Sjálfsrækt heilsumiðstöð og má sjá viðtalið við hana í heild sinni hér fyrir neðan.