laugardagur 13. nóvember 2021

Flugmaður sem mokaði út vél Icelandair kveikti hugmyndina að jólaauglýsingunni

Flugmaður sem mokaði út vél Icelandair kveikti hugmyndina að jólaauglýsingunni
Tökur á jólaauglýsingu Icelandair fóru fram á Akureyri um daginn.

N4 ritstjórn25.11.2021

Undanfarin ár hefur Icelandair alltaf teflt fram veglegri jólaauglýsingu. Auglýsingarnar eru yfirleitt hugljúfar og segja fallegar sögur. Auglýsingin í ár er þar engin undantekning en hugmyndin á bak við hana er áhugaverð.

„Hugmyndin kviknaði í kringum atburð sem gerðist árið 2010. Þá var okkar vél í Amsterdam og það hafði snjóað pínulítið um daginn og nóttina. Og það komust engar vélar í loftið af því það var smá snjór á jörðinni. Þar var flugmaður hjá okkur sem var ekki alveg til í að kaupa þetta og fór út úr vélinni og bað um skóflu og mokaði vélina út. Og þetta var eina vélin sem fór í loftið þann daginn," segir Gísli S. Brynjólfsson, markaðsstjóri Icelandair, aðspurðum um hugmyndina á bak við jólaauglýsinguna 2021. Kvikmyndatökulið var statt á Akureyri um daginn til þess að taka upp jólaauglýsinguna og var meðal annars myndað á Eyrinni og við Andapollinn.

Auglýsingin sýnd um allan heim

Gísli segir að auglýsingin hafi verið í undirbúningi í 12 mánuði. Segir hann að það hafi verið heppilegt að koma norður þar sem snjór kemur við sögu í auglýsingunni en þó vissulega hafi snjóað á Akureyri þá þurfti að bæta við gervisnjó í tökunum. Þegar N4 ræddi við hann var teymið við tökur við eitt jólalegasta hús Akureyrar, Eyrarveg 35. „Okkur fannst viðeigandi að taka auglýsinguna á Akureyri. Akureyringar vilja meina að hér sé vagga flugsins og við getum alveg tekið undir það að einhverju leyti. Þetta er auglýsing sem verður sýnd á Íslandi og út um allan heim. Og nú er Akureyri komin í leiðarkerfi Icelandair svo það er bara mjög fínt að koma hingað og lyfta bænum aðeins upp."

Gísli vildi annars ekki segja meira um söguþráð auglýsingarinnar og sagði að fólk yrði bara að bíða fram í desember þegar auglýsingin fer í loftið. Ef að líkum lætur verður auglýsingin jólaleg, hugljúf og falleg eins og jólaauglýsingar flugfélagsins undanfarin ár.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Gísla í heild sinni sem N4 tók við hann og birtist í þættinum Að norðan.