„Fólk vill heimsækja okkur oftar en einu sinni"

„Fólk vill heimsækja okkur oftar en einu sinni"
Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna

N4 ritstjórn07.12.2022

Skógarböðin opnuðu í lok maí á þessu ári og hafa nú þegar tekið á móti meira en 60 þúsund gestum. Framkvæmdastjórinn er bjartsýn á veturinn og ætlar sér meðal annars að ná skíðagestum yfir í böðin í skíða notalegheit.  

Skógarböðin geta tekið á móti um 200 gestum hverju sinni og frá því að böðin opnuðu í sumarbyrjun hafa þau verið opin frá morgni til miðnættis alla daga vikunnar. Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna segir böðin hafa fengið hreint út sagt magnaðar og jákvæðar viðtökur.  Við vissum að við fengjum eftirtekt og yrðum vinsæll áningarstður í sumar en ég held ég geti bara sagt fyrir hönd okkar allra að þetta fór fram úr okkar björtustu vonum. Við fengum bæði innlenda og erlenda gesti og þetta er bara búið að ganga alveg virkilega vel.  Og allir rosalega glaðir og ánægðir með umhverfið," segir Tinna sem var í viðtali í þættinum Að norðan á N4. „Nú erum við líka farin að selja vetrarkort fyrir þá sem búa hérna nær okkur því við fundum að það var bara mikil þörf á því, fólk vill heimsækja okkur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Og það er yndislegt að gera aðeins þjónustað nærsveitina betur en að bjóða bara upp á stakar ferðir til okkar."

 

Vinsæll bistro veitingastaður

Skógarböðin bjóða líka upp á ýmislegt fleira en bara baðupplifun.  Bistro veitingastaðurinn Skógarbistro hefur verið ótrúlega vinsæll . Það voru pínu mistök að hafa hann ekki stærri, af því að viðtökurnar hafa verið það góðar þar líka. Svo erum við með þyrlupall þannig að í sumar tókum við á móti alveg ótrúlega mikið af þyrlum sem komu héðan innan úr Skíðadal og víðar að af landinu, þannig að gestir eru að heimsækja okkur á ýmsan hátt. Svo erum við með hleðslustöðvar niður við bílaplanið þannig að margir hafa bara verið að hlaða bílana sína og fengið sér kaffisopa og kökusneið á meðan, í staðinn fyrir að leggja á bensínstöðvum, " segir Tinna sem vonar að fólk komi og nýti sér svæðið í heild sem útivistarsvæði því náttúran í kring er virkilega falleg. 

-Svo hafið þið líka verið með tónleika hérna?
Eiginlega ætluðum við bara að halda eina tónleika hérna, þetta áttu að vera svona opnunartónleikar. Svo varð þetta bara svo brjálæðislega vinsælt, allir voru svo glaðir með þetta og fannst þetta svo geggjað, þannig að við erum búin að vera með tónleika næstum því alla fimmtudaga í svolítið margar vikur tónleika hérna. Við ætlum að gera þetta svo lengi sem veður leyfir  og klárlega næsta sumar munum við halda þessu áfram því þetta er búið að vera ótrúlega skemmtileg viðbót. “ Þó veturinn sé skollinn á er enn töluvert af gestum sem daglega heimsækja Skógarböðin. Helgarnar eru þó vissulega sterkari en virku dagarnir enda ekki lengur skemmtiferðaskip í höfn alla daga eins og í sumar. Þá eru flugfélögin farin að fljúga hingað inn til okkar í auknu mæli og það hefur allt áhrif. Við erum bara ótrúlega bjartsýn á veturinn. Svo hlakka ég svo til þegar fjallið opnar og gestirnir fara að koma þaðan, en við ætlum okkur að fá fólk til að koma hingað í svona eftir skíða notalegheit . Fyrir þá sem eru vanir að sækja Akureyri heim þá er spennandi að geta bætt ferð í Skógarböðin við afþreyinguna.”

 

Viðtalið við Tinnu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

Deila