N4 logo

Snjóflóðavarargarðarnir á Siglufirði eru frábær gönguleið

Snjóflóðavarargarðarnir á Siglufirði eru frábær gönguleið
Skálarípill, Bakkarípill, Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Stóri Boli og Litli Boli. Snjóflóðarvarnargarðarnir hjá Siglufirði hafa allir sín nöfn.

N4 ritstjórn17.09.2021

Vinsælasta gönguleið Siglufjaraðr er án efa snjóflóðavarnargarðarnir sem liggja í fjallinu fyrir ofan bæinn. Alls ekki allir átta sig á því að hægt sé að ganga eftir görðunum eða ríplunum eins og garðarnir kallast en heimamenn nota þá mikið til útivistar.

„Þetta er ekkert svo auðséð frá bænum en ef maður fer að rýna í fjallið þá sér maður móta fyrir línu sem er þá handriðið á þessum görðum sem snýr upp í fjallið," segir Gestur Hansason, eigandi útivistarfyrirtækisins Top Mountaineering . Gestur segir að snjóflóðavarnargarðarnir, sem eru víst kallaðir ríplar, séu mikið notaðir til útvistar. „Maður sér hér endalaust fólk alla daga og langt fram á kvöld að vera að njóta útsýnisins. "

Endalausar gönguleiðir í grennd við Siglufjörð

Ríplarnir eru mislangir, sá lengsti líklega ríflega kílómetri að lengd, og fólk nýtir þá bæði til þess að ganga og hlaupa eftir. „Svo leiðir þetta eitt af öðru og tilvalið að ganga veginn gamla sem liggur upp í Hvanneyrarskálina og njóta enn meira útsýnis." Aðspurður um uppáhalds gönguleið sína í nágrenninu nefnir hann Hafnarhyrnuna. Annars eru gönguleiðir í grennd við Siglufjörð endalausar eins og Gestur hefur sannreynt, en hann fer reglulega með hópa í gönguferðir á vegum útivistarfyrirtækisins síns Top Mountaineering.

Gestur var í viðtali í þættinum Að norðan á N4 um garðana og fleira þeim tengt. Viðtalið við Gest má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.