N4 logo

FIMMTUDAGUR 26. MAÍ 2022

Fyrsti Íslendingurinn til þess að ganga Jakobsveginn með stóma

Fyrsti Íslendingurinn til þess að ganga Jakobsveginn með stóma
Mynd: Facebooksíða Málfríðar

N4 ritstjórn12.05.2022

Málfríður Þórðardóttir ljósmóðir, sem er frambjóðandi í sveitastjórnarkosningunum á Akureyri, er fjarri góðu gamni á endaspretti kosningarbaráttunnar.  Málfríður er nefnilega  að ganga Jakobsveginn og líklega fyrsti Íslendingurinn til að gera það með stóma. 

Málfríður er á ferð með fimm öðrum Íslendingum og var hópurinn búinn að ganga í viku þegar þáttastjórnandi Föstudagsþáttarins á N4 bjallaði í hana. Málfríður var þá búin að ganga um 150 km af 780 km. Með í för er m.a. faðir Málfríðar sem er 79 ára gamall. Hann er í hörkuformi karlinn,hann er ekki sá sem vælir í þessari ferð," segir Málfríður  og heldur áfram. Þetta gengur vel en auðvitað er þetta erfitt og margar áskoranir á hverjum degi.  En þetta er fyrst og fremst gaman og nærandi. Það er fallegt umhverfi hérna og gott veður. Það er rosalega gott fólk á veginum, héðan og þaðan. Allir sem við hittum sem eru að þjónusta okkur eru ótrúlega góðhjartaðir og kurteisir. Og það kemur svolítið á óvart hvað allir eru með þessa hugsjón og maður finnur að það skilar sér svo vel til manns." 

 

Aukaáskorun að ganga leiðina með stóma

Málfríður segir að það að ganga Jakobsveginn hafi verið gamall draumur hjá henni. Hún er öryrki í dag eftir að hún varð fyrir læknamistökum fyrir nokkrum árum.   Ég hugsaði með mér að þegar ég næ aftur heilsu, ég hugsaði alltaf þegar en ekki ef,  þá myndi ég láta verða af því að fara þessa ferð. Ég er búin að undirbúa mig vel, lesa mikið og reyna að halda mér í formi eins og hægt er, og safna smá pening, þetta kostar jú aðeins en maður getur samt vel haldið kostnaðinum niðri. Hann fer bara eftir því hvað maður borðar og hvar maður gistir og svo framvegis. Svo þurfti ég líka að undirbúa mig því ég er með stóma og þurfti að taka með mér dót því tengdu og gististaðina þurfti ég að velja betur en aðrir.  Ég er eini Íslendingurinn sem ég veit um sem hefur lagt upp í þessa ferð með stóma en vonandi verður þetta bara hvatning til annarra að prufa að fara."

 

Ganga frönsku leiðina

Málfríður viðurkennir að stóminn sé aukaáskorun og að hún hafi þurft að fara út fyrir sinn þægindaramma.  Auðvitað er þetta aukaáskorun en fyrst og fremst er þetta þó gaman. Auðvitað er maður að kljást við fótapirring og þreytu en ég hef sloppið við blöðrur en það eru ekki allir svo heppnir í mínum hópi. Við höfum því miður séð krossa hér á leiðinni, fólk hefur dáið hérna. Við löbbuðum fram á einn sem andaðist, en ég hugsaði að hann fékk þá vonandi að deyja þar sem hann vildi og glaður.  "

Málfríður og hennar hópur er að ganga frönsku leiðina.  Svo er portúgalska leiðin og breska leiðin og svo eru ýmsir útúrdúrar. Þannig það er hægt að gera þetta aftur og aftur ef mann langar til og hefur tíma. Ég gæti alveg hugsað mér það."  Þá bendir Málfríður á að það er nóg að fara 100 síðustu kílómetrana til þess að fá syndaaflausn, ekki þarf að ganga allan veginn og þá má líka hjóla leiðina. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila