Fullorðnir æstir í að leika

Fullorðnir æstir í að leika
Loksins býðst fullorðnum að spreyta sig í Leiklistarskóla Akureyrar sem eingöngu hefur boðið upp á leiklistarnámskeið fyrir börn hingað til.

N4 ritstjórn20.02.2021

Leikfélag Akureyrar hefur í 12 ár haldið úti leiklistarskóla fyrir börn. Nú geta fullorðnir einnig skráð sig á leiklistarnámskeið og hafa viðtökur farið framar öllum vonum.

Að sögn Maríu Pálsdóttur, skólastjóra Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar er ástæðan fyrir því að ákveðið var að bjóða einnig upp á námskeið fyrir fullorðna einfaldlega þrýstingur. Fyrsta námskeiðið fylltist strax en fleiri námskeið verða í boði. María var í viðtalið í Föstudagsþættinum og sagði þá frá því að fólk væri greinilega mjög þyrst í það að leika. „Þetta gleður mig mikið og ég er mjög spennt fyrir þessu," sagði María í þættinum.

Hollt að stíga út fyrir þægindarammann

Að sögn Maríu er eitthvað um það að foreldara þeirra barna sem farið hafa í leiklistarskólann skrái sig á fullorðinsnámskeiðin. Námskeiðin eru í Deiglunni eins og er en leit stendur yfir að hentugra húsnæði undir leiklistarskólann þar sem hljóðvistin í Deiglunni er ekki hönnuð fyrir leikhús. Hún segir það vera mjög hollt að setja sig í spor annarra, en það er það sem leiklistin gengur út á. Auk þess stækki flestir og vaxi við það að fara út fyrir þægindarammann en það er það sem fólk gerir þegar það fer á leiklistarnámskeið. Viðtalið má sjá í heild sinni HÉR