Fyrrum kaupfélag en nú glæsilegt hótel

Fyrrum kaupfélag en nú glæsilegt hótel
Kaupfélagsbarinn er veitingahús á Neskaupsstað sem er opið allt árið.

N4 ritstjórn20.09.2022

Hótel Hildibrand í Neskaupsstað er rekið í húsnæði Gamla Kaupfélagsins Fram sem á sér merka sögu. Í húsinu er nú að finna 15 íbúðir með svölum og sjávarsýn og töff veitingastað sem kallast Kaupfélagsbarinn.  

Þetta hús er gamalt verslunarhús. Það var byrjað að reisa það árið 1948, eða lagt drög að því að byggja það þá, og svo var flutt inn í það árið 1951. Þá var þetta verslunarhús  á þremur hæðum sem þótti stórmagasín í þá daga," segir Guðröður Hákonarson, eigandi hótelsins en afi hans var kaupfélagsstjóri í húsinu í ein 40 ár.

 

Flott og glæsilegt magasín

„Þetta þótti mjög stórt og glæsilegt hús og reist af miklum myndugleika. Þá er það merkilegt sem verslunarhús frá þessum tíma því það er allt byggt á súlum og það eru engir innveggir í húsinu," segir Guðröður og bendir á hversu nútímalegt verslunarhúsnæðið hafi verið miðað við hvenær það var byggt.  Það er svolítið merkilegt að það hafi verið byggt svona snemma með þessarri hugsun að geta breytt búð fram og tilbaka.  Hann segir að þegar verslunarhúsnæðið var tekið í notkun þá hafi verið matvöruverslun á neðstu hæðinni og hluti af járnvöruverslun. Á  annarri hæð var herrafataverslun og skrifstofur Kaupfélagsins. Síðan var dömu- og vefnaðarvörudeild á þriðju hæðinni.   

 

Þátturinn Að Austan heimsótti Guðröð og fékk að heyra alla sólarsöguna varðandi það hvað varð um húsið eftir að Kaupfélagið Fram varð gjaldþrota. Viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér fyrir neðan og inn á Sjónvarpi Símans. 

 

Deila