N4 logo

Getum ekki fórnað stjórnarskránni fyrir stólana

Getum ekki fórnað stjórnarskránni fyrir stólana
Álfheiður Eymarsdóttir skipar fyrsta sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi.

Álfheiður Eymarsdóttir skipar efsta sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september nk. Hún fæddist á Hornafirði en býr nú á Selfossi. Álfheiður hefur á þessu kjörtímabili verið varaþingmaður Smára McCarthy, sem gaf ekki kost á sér fyrir þessar kosningar og Álfheiður ákvað því að taka slaginn og leiða lista Pírata í Suðurkjördæmi.

„Mitt aðal áherslumál í gegnum tíðina hefur verið róttæk breyting í sjávarútvegi. Í því finnst mér endurspeglast flest þau vandamál sem þarf að leysa í íslensku samfélagi. Það er mín sannfæring að ef okkur tekst að leysa þetta ósætti og þessi átök um kvótakerfið og fiskveiðistjórnunina og sjávarútveginn í heild séu okkur allar götur færar. Við erum með ákveðin prinsip sem við viljum halda í, við viljum nýja stjórnarskrá þar sem eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni er tryggt, við viljum gæta jafnræðis við úthlutun heimildanna og að þær séu tímabundnar. Við tölum aldrei um kvótaeigendur, við tölum alltaf um handhafa kvótans. Þeir eiga hann ekki, við eigum hann. Við myndum vilja setja veiðiheimildirnar á uppboð þannig að öllum Íslendingum sem hefðu áhuga á gæfist kostur á að bjóða í. Við erum jafnvel til í að lækka kvótaþakið aðeins í þorski, t.d. niður í 7-9 prósent,“ segir Álfheiður. Hún segist ekki undrast að sjávarútvegurinn sé mikið ræddur í aðdraganda þessara kosninga, enda sé það að sínu mati hagsmunaárekstur að Kristján Þór Júlíusson hafi verið ráðherra sjávarútvegsmála á kjörtímabilinu. „Svo hafa komið upp mál á þessu kjörtímabili sem hafa opnað augu almennings fyrir því hvernig kaupin gerast á eyrinni í sjávarútvegsbransanum. Þannig að nú tel ég að sé gluggi til þess að ráðast í lagfæringar á þessu.“

Álfheiður segir að Píratar hafi útilokað ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum en séu opnir fyrir því að starfa með öðrum flokkum. En vilja Píratar fara í ríkisstjórn eða líður þeim bara ágætlega í stjórnarandstöðu og gætu hugsað sér að vera þar áfram? „Það eru skiptar skoðanir um þetta innan Pírata. En meirihluti Pírata vill fara í stjórn og við viljum það núna eftir fjögurra ára kyrrstöðu, segir Álfheiður og undirstrikar að Píratar geri nýja stjórnarskrá að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi. Það er mál sem við getum ekki fórnað fyrir stólana,“ segir Álfheiður Eymarsdóttir.

Hér er viðtalið við Álfheiði.