Grænn grautur, múmíufingur og graskerakeppni

Grænn grautur, múmíufingur og graskerakeppni
Í ár var keppt um flottustu graskeraskreytinguna.

N4 ritstjórn16.11.2022

Hrekkjavakan í Valsársskóla á Svalbarðseyri er afar metnaðarfull. Undirbúningur hefst allt að tveimur vikum áður en hrekkjavökudagurinn er haldinn og taka bæði nemendur og kennarar virkan þátt í gleðinni sem er orðin ómissandi hluti af skólastarfinu.  

Fyrst er fundað um það hvernig skreyta eigi skólann, síðan eru skreytingar föndraðar og skólinn skreyttur. Skreytingar fyrri ára eru endurnýttar á hverju ári þannig að alltaf bætist á skrautið. Elstu bekkirnir nýta tímann í að undirbúa draugahúsið sem er hápunkturinn á sjálfan hrekkavökudaginn.  Þá þurfa bæði kennarar og nemendur að finna viðeigandi búninga og matráðurinn þarf að finna upp á matseðil sem sjokkerar.  Í ár var m.a. boðið upp á grænan graut, múmíufingur, skordýrasúkkulaðiköku og blóðugt pasta með sveppaheilum. 

Að norðan kíkti í heimsókn í skólann á hrekkjavökudaginn í október og sjá má innslagið í heild sinni hér fyrir neðan. Þar eru t.d. margar góðar hugmyndir fyrir aðra sem vilja skella í Hrekkjavökugleði hjá sér á næsta ári. 

 

 

 


 

Deila