Grænt ljós á að setja upp vindmyllur í Grímsey

Grænt ljós á að setja upp vindmyllur í Grímsey
Mynd af samskonar myllum í Skotlandi.

Karl Eskil Pálsson10.06.2021

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að veita Fallorku á Akureyri tímabundna heimild til eins árs til að setja upp og reka tvær vindmynnur í Grímsey. Tilgangurinn er að framleiða rafmagn með umhverfisvænum hætti í stað þess að framleiða allt rafmagn með dísil-rafstöð eins og nú er.

Möstrin á vindmyllunum eru 9 metrar á hæð og spaðarnir 5,6 metrar í þvermál, hæsti punktur frá jörðu er því tæplega 12 metrar, segir í skýrslu með umsókninni, sem skipulagsráð Akureyrar hefur nú semþykkt.

Vindmyllurnar framleiði 10% af raforkuþörfinni

Grímsey er ekki tengd orkukerfum Íslands og hefur því öll orkuframleiðsla í eyjunni til þessa dags verið með ósjálfbæru óendurnýjanlegu jarðleifaeldsneyti með tilheyrandi neikvæðum umhverfis- og loftslagsáhrifum. Tilgangur framkvæmdarinnar er rjúfa þá stöðu með því að framleiða rafmagn í Grímsey með umhverfisvænum hætti, í stað þess að framleiða allt rafmagn með dísil-rafstöð eins og nú er. Gert er ráð fyrir með þessu fyrsta skrefi, að rafmagn frá vindmyllunum tveimur framleiði um 10% af raforkuþörf í Grímsey.