Grunnskólanemar í Bolungarvík með lausn á úrgangi frá fiskeldi

Grunnskólanemar í Bolungarvík með lausn á úrgangi frá fiskeldi
Vinningsliðið frá Grunnskóla Bolungarvíkur Mynd: matís.is

N4 ritstjórn23.06.2022

Grunnskóli Bolungarvíkur lagði fram bestu tillöguna að lausn á umhverfisáskorun í sinni heimabyggð í Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni Grænna Frumkvöðla Framtíðar. Þrír skólar kepptu til úrslita en verkefni Grunnskólans í Bolungarvík gekk út á það að leita lausna við að nýta úrgang frá fiskeldi betur.  

 

Í lok maí fór fram Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni Grænna Frumkvöðla Framtíðar.  Til úrslita kepptu þrír skólar; Nesskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur og Árskóli. Hver skóli sendi inn myndband þar sem nemendur lögðu fram lausnir á umhverfisáskorunum í sinni heimabyggð. Keppnin var hnífjöfn en á endanum var það Grunnskóli Bolungarvíkur sem bar sigur úr býtum.  Sigurliðið naut aðstoðar frá Hildi Ágústsdóttur kennara og Gunnari Ólafsson frá Djúpinu frumkvöðlasetri. 

 

Að nýta úrgang frá fiskeldi

Grunnskóli Bolungarvíkur glímdi við áskorunina: „Hvernig er hægt að nýta úrgang frá fiskeldi betur? “ og lausnin sem vann bar yfirskriftina: „Að nýta úrgang frá fiskeldi á sjálfbæran hátt.“ Segir í endurgjöf dómnefndar að liðið hafi verið hugvitsamt og lausnarmiðað og komið auga á umhverfisvanda sem skapast vegna fiskeldis í sjó og leitað lausna á honum. 

 

Þess má geta að N4 sjónvarp hefur fylgst með verkefnum allra þriggja skólanna sem komust í úrslit í keppninni og er von á þætti þar sem efninu eru gerð góð skil.  Fylgist með á N4!

 

Deila