Háskólinn á Akureyri kominn í samstarf við háskóla á Tenerife

Háskólinn á  Akureyri kominn í samstarf við háskóla á Tenerife
IRIARTE háskólinn er á norðurhluta Tenerife í borginni Puerto de la Cruz. Mynd: heimasíða IRIARTE

N4 ritstjórn18.11.2022

Háskólinn á Akureyri býður nú upp á skiptinám á Tenerife fyrir nemendur í viðskiptafræðideild. Vonast er til þess að fyrstu nemendur haldi til Tenerife á næsta skólaári. 

Háskólinn á Akureyri var að ganga frá samstarfssamningi vegna skiptináms við háskóla á Tenerife. Skólinn  heitir IRIARTE og er hann staðsettur í borginni Puerto de la Cruz. Samstarfið er í gegnum Erasmus+ við viðskiptafræðideild HA. Að sögn Rúnars Gunnarssonar,  forstöðumanns miðstöðvar alþjóðasamskipta hjá HA, kennir skólinn mestmegnis á spænsku, en hins vegar er skólinn líka með námskeið á ensku og þýsku allt að 108 ECTS einingar í heildina svo það er svigrúm til skiptináms. 

 

Allir nemendur geta farið í skiptinám

Rúnar, sem var nýlega í viðtali í þættinum Að norðan á N4, sagði þar að flestir nemendur færu í skiptinám til Norðurlandanna en það væri alltaf töluvert spurt um nám í heitari löndum, sérstaklega á þungum vetrum, svo nýi samstarfssamningurinn býður upp á enn meiri möguleika fyrir nemendur HA.  Við erum að bjóða upp á möguleika á skiptinámi fyrir alla okkar nemendur en þeir þurfa fyrst að koma til okkar og stunda fyrsta árið í námi hjá okkur en síðan geta þau farið í skiptnám við eitthvað af samstarfsskólunum okkar erlendis. Skiptinámið er breytilegt á milli námsbrauta. Í hjúkrunarfræði og iðjuþjálfun erum við t.d. meira í því að finna verknámspláss fyrir nemendur einhvers staðar á vettvangi en annars eru það námskeið. Við reynum að tryggja það að allir nemendur hafi nægt námsframboð og að samstarfsskólarnir séu vítt og breytt. Svo erum við líka með ýmsa styrkjamöguleika fyrir nemendur sem eru að fara í skiptinám." 

 

Viðtalið við Rúnar og umfjöllun um Opna daga í Háskólanum á Akureyri má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

 

Deila