Háskólinn á Akureyri leiði innleiðingu fjarnáms á Grænlandi

Háskólinn á Akureyri leiði innleiðingu fjarnáms á Grænlandi

Karl Eskil Pálsson22.01.2021

Í skrýrslu um samstarf Grænlands og Íslands, sem kynnt var í gær, eru lagðar fram 99 tillögur um eflingu landanna. Össur Skarphéðinsson fyrrvernadi utanríkisráðherra var formaður nefndarinnar og var nefndinni jafnframt falið að greina tvíhliða samskipti landanna í dag, sem hafa eflst mikið á undanförnum árum, bæði pólitísk og efnahagsleg. Lagt er til að íslensk stjórnvöld bjóði fram íslenska reynslu um þróun fjarnáms á verkmennta- og framhaldsskólastigi sem miðlað yrði undir forystu Háskólans á Akureyri í samvinnu við háskólann í Nuuk, Ilisimatusarfik.

Þriggja ára tilraunaverkefni

Í skýrslu Grænlandsnefndar er að finna samtals 99 einstakar tillögur um aðgerðir til að auka samvinnu Grænlands og Íslands á mismunandi sviðum. Meðal annars er lagt til að utanríkis- og menntamálaráðherra gangi frá samkomulagi sem tryggi fjárhagslegan grundvöll fyrir þriggja ára tilraunaverkefni um innleiðingu fjarnáms.

Háskólinn á Akureyri leiði verkefnið

Lagt er til að íslensk stjórnvöld bjóði fram íslenska reynslu um þróun fjarnáms á verkmennta- og framhaldsskólastigi sem miðlað yrði undir forystu Háskólans á Akureyri í samvinnu við háskólann í Nuuk, Ilisimatusarfik.
Löndin leiti í sameiningu til norrænna og evrópskra sjóða um að taka þátt í að fjármagna innleiðingu fjarnáms í Grænlandi í því augnamiði að lyfta menntastigi landsins. Það er nú hið lægsta í Evrópu.


Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri fagnar þessum tillögum og segir skólann vel í stakk búinn til að leiða slíkt verkefni

Grunnur að enn frekara rannsóknarstarfi

„Háskólinn á Akureyri hefur þróað fjarnám um tveggja áratuga skeið og er því vel í stakk búinn til þess að vinna með Illisimatusarfik (Háskóli Grænlands í Nuuk) við innleiðingu slíks náms, á þeirra eigin forsendum. Háskólinn á Akureyri hefur jafnframt verið í beinu rannsóknasamstarfi og kennaraskiptum þar sem áherslan hefur verið á réttindi frumbyggja, stjórnun samfélaga og uppbyggingu félagslegra innviða. Illisimatusarfik hefur byggt upp öflugt doktorsnám sem HA getur lært af og er grunnur að enn frekara rannsóknasamstarfi.“

Fjarnámið öflugt tæki

„Það er mikilvægt að farið sé í verkefnið af virðingu fyrir hefðum og sögu þannig að tæknin nýtist sem best í að koma til skila nýrri þekkingu í samhengi við þarfir grænlensku þjóðarinnar. Íslendingar og Grænlendingar eiga það sameiginlegt að búa í löndum þar sem nauðsynlegt er að opna aðgengi að háskólanámi til allra byggða í landinu. Fjarnámið hefur sannað sig sem öflugt tæki til þess hér á landi og mun örugglega nýtast Grænlendingum líka til að auka aðgengi að háskólamenntun. Við vonum innilega að verkefnið verði að veruleika,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri.