Hefur gríðarleg áhrif á allt sem maður gerir

Hefur gríðarleg áhrif á allt sem maður gerir
Þóra og Karen starfa báðar fyrir Hugrúnu geðfræðslufélag háskólanna.

N4 ritstjórn02.08.2022

Umræða um geðheilbrigðismál hefur breytst gríðarlega á undanförnum árum. Forsvarsmenn Hugrúnar, geðfræðslufélags háskólanna, finna vel fyrir breyttum hugsunarhætti en félagið fræðir ungmenni um geðheilbrigði. 

Hugrún, geðfræðslufélag háskólanna, var stofnað árið 2016 af háskólanemum á heilbrigðisvísindasviði. Félagið var stofnað  í þeim tilgangi að fræða ungmenni um geðheilbrigði. Og þetta höfum við verið að gera með því að halda fyrirlestra í framhaldsskólum landsins og erum með sjálfboðaliða í öllum háskólum landsins," segir Karen Geirsdóttir, fyrrverandi formaður félagsin. Karen var í viðtali í þættinum Kvöldkaffi á N4 ásamt núverandi formanni félagsins, Þóru Jóhannsdóttur. 

 

Ertu ekki bara með prófkvíða?  

Það var ekkert svona þegar ég var í grunnskóla og framhaldsskóla og þetta vantaði bara.  Ég upplifi að geðheilbrigðismál séu núna  ofarlega í hugum fólks og eðlilega, því þau snerta svo ótrúlega margt. Hvernig manni líður það hefur bara gríðarleg áhrif á allt sem maður gerir. Þeir vilja tala um þetta krakkarnir," segir Þóra. Karen tekur undir þetta og segir að áður hafi ungt fólk ekki vitað hvað kvíði  eða þunglyndi var. Það hafi liggur við verið tabú að fara til sálfræðings.  Sem betur fer hafi það breyst. „Áður var bara talað um að fólk væri með prófkvíða, í staðinn fyrir að þetta væri eitthvað sem væri hamlandi," segir Karen og bætir við að það hefði verið gott að vera sjálf með betri skilning á málinu þegar hún var yngri til að geta brugðist betur við sem aðstandandi. Þær segja birtingarmyndir kvíða og þunglyndis séu margskonar og því betur sem fólk átti sig á þeim, þeim mun betri verði skilningurinn. 

 

Viðmið nauðsynlegt

Með því að tala um þessi mál setur maður gott fordæmi og auðveldar fólki að opna sig um þessi mál. Ef þú ert ekki með neitt viðmið hvað er eðlilegt þá er erfitt að bera kennsl á einhvern vanda. Og það er ótrúlega erfitt að vera með einhver viðmið þegar það er ekkert talað um efnið," segir Þóra. 

 

Viðtalið við þær stöllur í heild sinni má sjá hér fyrir neðan en í þættinum ræddu þær einnig sína eigin líðan og þáttastjórnandinn deildi því líka að hún hefði sjálf verið að fara í gegnum kvíðatímabil. 

 

Deila