Heilsuvernd tekur við rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar

Heilsuvernd tekur við rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar
Starfsmenn ÖA eru um 300, þannig að Heilsuvernd hjúkrunarheimili verður einn stærsti vinnuveitandinn á Akureyri / mynd:akureyri.is

Karl Eskil Pálsson15.04.2021

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samning sem gerður hefur verið milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsuvernd hjúkrunarheimili um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar, (ÖA). Heilsuvernd tekur við rekstrinum um næstu mánaðamót.

Verður einn stærsti vinnuveitandi bæjarins

Stöðugildi við ÖA eru um 220 og starfsmenn eru um 300 og því ljóst að Heilsuvernd verður með stærri vinnuveitendum bæjarins frá og með næstu mánaðamótum. Hátt í 140 búa á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð og á Lögmannshlíð eru íbúarnir 45.

Öldrunarheimili Akureyrar eru á tveimur stöðum og reka heimili fyrir alls 182 íbúa og þar af eru hjúkrunarrými fyrir 155.

Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. sem er með aðalstöðvar sínar í Kópavogi, rekur heilsugæslustöð við Urðarhvarf og starfrækir útibú á Akureyri.

Akureyrarbær sagði upp þjónustusamningi um rekstur ÖA vegna mikils hallareksturs og hættir þar með rekstri hjúkrunar- og dvalarheimilisrýma fyrir aldraða og einnig dagþjálfunar fyrir eldra fólk á Akureyri.