Heimilslaust tækniminjasafn

Heimilslaust tækniminjasafn
Tækniminjasafn Austurlands vantar nýtt þak yfir höfuðið eftir aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember.

N4 ritstjórn06.04.2021

Tækniminjasafn Austurlands vantar nýtt þak yfir höfuðuð eftir aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember. Skriðurnar gjöreyðilögðu tvö af húsum safnsins, auk þess sem aðrar fasteignir og safnasvæðið sjálft urðu fyrir umtalsverðum skemmdum. Safnið varðveitir mikilvægar minjar er tengjast nútímavæðingu þjóðarinnar, þar af mikið af óvenjulegum vélum og búnaði sem ekki er til sýnis í mörgum öðrum söfnum.

„Það er búið að gefa það út að það sé það mikil hætta á þessu svæði og að það sé ekki hægt að koma upp viðunandi varnarmannvirkjum," segir Elfa Hlín Sigrúnar og Pétursdóttir ráðgjafi hjá Tækniminjasafni Austurlands í viðtali í þættinum Að Austan á N4. Búseta á svæðinu hefur því verið bönnuð og endurbygging á húsum á svæðinu kemur ekki til greina. Safnið er því heimilislaust.

Margir munir ónýtir

Margir ómetanlegir safnmunir með mikla og merkilega sögu hurfu í aurskriðunum. Einhverju tókst að bjarga úr rústunum en þeir hlutir voru í misgóðu ástandi. Framundan er tímafrek vinna við að koma skipulagi á hlutina og hreinsa og skrá muni safnsins, ásamt því að flytja safnið á betri stað. Elfa Hlín segir að þó að atvinnustarfssemi yrði leyfð á svæðinu þá væri ekki boðlegt í ljósi stöðunnar að byggja upp safn með menningararfi þjóðarinnar við þær aðstæður. „Við getum ekki verið að byggja uppþá starfssemi vitandi það að það eru meiri líkur en minni á því að hér komi önnur skriða. " Aðspurð að því hvernig hún sjái sumarið fyrir sér þá segist hún bjartsýn á það að safnið geti boðið upp á einhverja starfssemi í sumar þrátt fyrir allt. Stefnt er að því að hin árlega smiðjuhátíð verði haldin á Seyðisfirði með dansleik á bryggjunni og kannski getur safnið sett upp sýningu einhvers staðar. Ljóst er að ærið verkefni er fyrir höndum hjá safninu við að koma öllu í skikkanlegt horf á nýjum stað.