Heimsfrægir heitir pottar

Heimsfrægir heitir pottar
Heitu pottarnir á Drangsnesi, sem eru í 30 km frá Hólmavík, eru opnir öllum án endurgjalds. Tilvalið er að leggja leið sína þangað og fá sér svo að borða hjá Malarkaffi eða jafnvel sigla út í Grímsey og skoða fuglalífið.

N4 ritstjórn31.07.2021

Heitu pottarnir á Drangsnesi á Ströndum eru orðnir víðfrægir. Myndir af þeim hafa birst út um allan heim og laða þeir ferðamenn til sín, bæði innlenda sem erlenda. Tilviljun réð hins vegar tilurð þeirra.

Saga heitu pottanna á Drangsnesi var rifjuð upp af Evu Katrínu Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Malarhorns í þættinum Að vestan á N4, en pottarnir eiga sér sérstæða sögu. „Árið 1997 þá var verið að bora eftir köldu vatni og þá slysuðust þeir á heita vatnsæð. Þá var bara náð í fiskeldiskör og látið renna í þau við götuna. Og síðan þá hafa bara alltaf verið pottar þarna í fjörunni," segir Eva. Borolan er rétt hjá pottunum og það er sírennsli í pottana beint úr jörðinni svo ferskara gerist það varla.

Fuglaskoðun í Grímsey

Eva Katrín segir að það hafi verið þvílík bylting fyrir þorpið að fá heitt vatn á sínum tíma. Í kjölfarið fengu íbúar hitaveitu og sundlaug var byggð í þorpinu með heitum pottum og gufu. Þjónusta við ferðamenn fór svo að byggjast upp. Gistiheimilið Malarhorn var fyrst til að bjóða ferðafólki gistingu og rakti Eva sögu þess í þættinum. Þar sagði hún líka frá afþreyingunni sem er í boði á Drangsnesi en þaðan er t.d. hægt að komast út í Grímsey sem liggur rétt fyrir utan Drangsnes.