Hreindýraveiði í fullum gangi

Hreindýraveiði í fullum gangi
Hreindýraveiði hófst 15. júlí. Bannað er að veiða tarfa sem eru yngri en tveggja ára.

N4 ritstjórn20.07.2021

Hreindýraveiðitímabilið hófst fyrir helgi. Veiði er einungis leyfð á törfum til að byrja með en þann 1. ágúst hefst veiðitími á kúm. Alls má veiða 1.220 dýr í ár.

Samkvæmtu upplýsingum á heimasíðu Umhverfisstofnunar hófust tarfaveiðar þann 15. júlí. Þar er jafnframt vakin athygli á því að veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tarfa sem eru tveggja vetra og eldri. Fram til 1. ágúst skal ekki ekki veiða tarfa sem eru í fylgd með kúm þannig veiðarnar trufli ekki kýr og kálfa í sumarbeit. Veiðitími á kúm hefst svo 1. ágúst. Þá eru veiðimenn á veiðisvæði 9 hvattir til að veiða tarfa vestast á svæðinu en það er gert í þeim tilgangi að fækka dýrum þar þannig að það dragi úr líkum á að dýrin fari vestur yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi og einnig til að koma í veg fyrir gróðurskemmdir, ef dýrin verða of mörg á svæðinu.

N4 hefur nokkrum sinnum fjallað um hreindýrin á Austurlandi. Nýjasta innslag stöðvarinnar er frá því í vor en þá var mikið af hreindýrum á Djúpavogi. Innslagið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan en þar er rætt við Skarhéðinn Þórisson, sérfræðing á Náttúrustofu Austurlands.