Hvað á að gera um versló?

Hvað á að gera um versló?
Verslunarmannahelgin er dagana 30. júlí - 2. ágúst. Hvað ætlar fólk að gera? Grilla heima eða ferðast eitthvert?

N4 ritstjórn21.07.2021

Það styttist í verslunarmannahelgina og líklega margir sem ætla að leggja land undir fót þessa stærstu ferðahelgi sumarsins. Hér eru nokkrar hugmyndir að því hvar hægt er að eyða helginni en listinn er alls ekki tæmandi.

Gönguhátíð í Súðavík

Eins og undanfarin ár þá verður haldin gönguhátíð í Súðavík með fjölbreyttum göngum við allra hæfi og fjörugum uppákomum. Hátíðin er haldin í samvinnu Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og gönguklúbbsins Vesens og vergangs. Fylgjast má með dagskrá hátíðarinnar inn á facebook síðunni Gönguhátíð í Súðavík 2021.

Sæludagar í Hörgársveit

Íbúar í Hörgársveit bjóða fólki heim til sín í sveitasæluna. Gönguferðir verða t.d. í boði með leiðsögn heimamanna. Mikið verður um að vera á Hjalteyri og endar sú gleði með flugeldasýningu.

Þjóðhátíð í Herjólfsdal

Eftir að þjóðhátíðinni í Eyjum var aflýst í fyrra þá hafa skipuleggjendur gefið út að hátíðin í ár verði einstaklega glæsileg.

Ein með öllu og Sumarleikar á Akureyri

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin um verslunarmannahelgina á Akureyri. Hátíðin verður með hefðbundnu sniði með viðburðum á borð við óskalagatónleika í Akureyrarkirkju, barnaskemmtunmarkaðsstemning í miðbænum, fjáröflunarviðburðurinn „Mömmur og möffins“ og „Sparitónleikar“ á lokakvöldinu sem eru stærstu tónleikar hátíðarinnar. Samhliða Einni með öllu eru Íslensku Sumarleikarnir haldnir þar sem m.a. fer fram Kirkjutröppuhlaupið við Akureyrarkirkju, strandhandboltamót í Kjarnaskógi, hópkeyrsla mótorhjólaklúbbsins Tíunnar og þríþrautarkeppni á Hrafnagili. Þá verður Color Run líka haldið í bænum þessa helgi.

Berjadagar í Ólafsfirði

Tónlistarhátíðin Berjadagar verða haldnir um Verslunarmannahelgina í Ólafsfirði en þar rennur náttúran saman við listsköpun. Boðið verður upp á styttri og lengri tónleika þar sem klassísk tónlist er áberandi.

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi

Unglingalandsmótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Í ár verður mótið haldið á Selfossi.

Innipúkinn í Reykjavík

Innipúkinn, þriggja daga tónlistarhátíð verður haldin í höfuðborginni um verslunarmannahelgina. Aðaltónleikadagskráin fer fram innandyra, aðallega í Gamla bíó og á efri hæð Röntgen. Meðal listamanna sem koma fram á Innipúkanum eru: Birgitta Haukdal & Moses Hightower, Reykjavíkurdætur, Emmsjé Gauti og Bríet.

Páll Óskar í Neskaupsstað

Það verður ekkert Neistaflug í Neskaupsstað í ár en í staðinn verður boðið upp á Tónaflug í allt sumar sem er samstarfsverkefni SÚN, Menningarstofu Fjarðabyggðar og Beituskúrsins. Um verslunarmannahelgina verður Tónatitringur í Egilsbúð á föstudagskvöldið og Queernes ball með Páli Óskari á laugardeginum.