Hvað sögu segja skórnir þínir?

Hvað sögu segja skórnir þínir?
Björg safnstýra á Hversdagssafninu á Ísafirði, einu óvenjulegasta safni landsins.

N4 ritstjórn01.08.2021

Á Hversdagssafninu á Ísafirði eru safngestir minntir á hið venjulega og hversdagslega. Meðal annars er þar hægt að spá í ósköp venjulegum skó og hlusta á eigendur þeirra tala um þá, sem fær gesti safnsins jafnframt til þess að spá í sínum eigin skóm.

Meginmarkmið Hversdagssafnsins á Ísafirði er að rannsaka hið hversdagslega og venjulega. Safnið vekur upp gleði og sorg auk þess að gefa innsýn í horfna veröld. Þar er heillandi heim hins daglega lífs að finna og þar eru sagðar sögur af hversdagslegum atburðum eða stundum í lífi fólks sem samt sem áður eru töfrandi á sinn einfalda hátt. „Safnið byggir aðallega á djúpviðtölum við íbúa og fólk á svæðinu þar sem við reynum að miðla og skoða það sem gerist á milli stórviðburða. Þannig við erum almennt ekki að skoða stórviðburði í sögunni heldur frekar það sem gerist í kringum eldhúsborðið og smærri sögurnar sem við segjum vinum og almenn tengsl á milli fólks, " segir safnstýra safnsins, Björg Elínar Sveinbjörnsdóttir.

Lykt tengir við djúpar minningar

Á safninu eru nokkrar sýningar í gangi, auk þess sem þar er hægt að sjá þrjár stuttmyndir. Nýjasta sýning safnsins er Skynjunarsmiðja eða Sensory lab. „Þetta er sýning sem byggir á lykt og minni því lykt er svona skynfæri sem tengir okkur við ótrúlega djúpar minningar," segir Björg sem var í viðtali í þættinum Að vestan en viðtalið við hana má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.