N4 logo

Hverju getur þú reddað?

Hverju getur þú reddað?
Markmiðið með Reddingarkaffi er að lengja líftíma hluta.

N4 ritstjórn12.10.2021

Amtsbókasafnið á Akureyri er að fara af stað með „Reddingakaffi", viðburð þar sem fólk kemur saman til þess að gera við hluti á borð við föt eða raftæki. Fyrsta reddingakaffið var haldið í Hollandi árið 2009 en er nú orðið að alheimshreyfingu.

„Fólk kemur saman með hluti sem þarfnast einhverrar lagfæringar og aðrir leiðbeina þeim og hjálpa til við að laga hlutina," segir Hrönn Björgvinsdóttir starfsmaður Amtbókasafnsins á Akureyri en bókasafnið heldur sitt fyrsta Reddingakaffi þann 16. október. Á Reddingakaffi kemur fólk saman til þess að gera við hluti, hvort sem það er fatnaður, raftæki, skart, bækur eða bara hvað sem er. Ef rennilásinn er ónýtur, keðjan í hálsmeninu slitin eða gat komið á lopapeysuna þá gæti Reddingakaffi verið rétti staðurinn til þess að koma hlutunum í lag.

Óskað eftir verkfærum og færni

Reddingakaffi Amtsbókasafnsins er haldið í samstarfi við Munasafn Reykjavíkur / Reykjavík Tool Library. Amtsbókasafnið leitar nú að fólki sem hefur færni og þekkingu á einhvers konar viðgerðum og er tilbúið að miðla þeirri færni áfram. Eins óskar Amtsbókasafnið eftir verkfærum gefins eða til láns og efnivið sem gæti nýst í viðgerðir. Markmiðið með viðburðinum er að lengja líftíma hluta og draga úr sóun.

Hrönn Björgvinsdóttir og Jóhannes Árnason voru í viðtali í Föstudagsþættinum á N4 og sögðu þar nánar frá viðburðinum en þeir sem vilja leggja hönd á plóg geta haft samband við þau á opnunartíma safnsins .