Geitaknús í boði í dag!

Geitaknús í boði í dag!

N4 ritstjórn06.08.2022

Í dag verður þess minnst að 10 ár eru frá opnun Geitfjársseturs á Háafelli í Hvítárssíðu. Mikið stendur til á Háafelli í tilefni dagsins. Geitur og geitaafurðir verða að sjálfsögðu í fyrirrúmi þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta gengið um og gefið og þegið geitaknús, en að auki verða hoppukastali, ratleikur og allskonar útileikföng fyrir krakkana.

Fyrir rúmum áratug stóð tæpt með íslenska geitastofninn. Þær geitur sem hér eru teljast enn til landnámsstofns án þekktrar innblöndunar og hefur hann því mikið þjóðmenningarlegt gildi auk þess sem ullareiginleikar íslensku geitarinnar þykir einstakt, segir í tilkynningu frá Geitarfjársetrinu. Árið 2012 var stofninn einungis rúmlega 800 dýr og leit út fyrir að hann myndi deyja út innan fárra ára nema gripið yrði til ráðstafana. Það var ekki síst fyrir tilverknað Geitfjársseturs, verkefnis hugsjónakonunnar Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur og hennar vaska samstarfsfólks, sem geitastofninum var bjargað og við fáum í dag að njóta geitaafurða og ekki síst samveru með þessum frábæru skepnum sem í dag telja um 1600 dýr.

Unnið að uppbyggingu geitastofnsins

Þrátt fyrir þennan frábæra árangur er enn langt í land. Til að stofn teljist ekki lengur í útrýmingarhættu er talað um að hann verði að telja meira en 5000 kvendýr til að viðhalda erfðafjölbreytileika og aðlögunarhæfni til lengri tíma. Því er geitfjárstofninn verndaður og unnið er markviss að uppbyggingu hans. Því fleiri sem fá að kynnast íslensku geitinni og hennar frábæru eiginleikum því meiri möguleika eigum við að koma íslenska geitfjárstofninum í höfn. Eins og áður segir þá verður þess minnst í dag að 10 ár eru frá opnun Geitfjársseturs á Háafelli í Hvítárssíðu. Mikið stendur til þennan dag og er setrið opið fyrir alla milli kl. 13 og 18, og vonast húsráðendur til þess að sjá sem flesta.  

 

20170823_171039.jpg

Deila