N4 logo

Kaffibollar sem gefa meira

Kaffibollar sem gefa meira
Góður kaffisopi getur verið góður fyrir geðið og enn betra ef hann gefur áfram eins og er tilfellið á kaffihúsinu Barr í góðgerðarmánuðinum sem nú stendur yfir Mynd: Unsplash/Taylor Hernandez

N4 ritstjórn16.09.2021

Kaffihúsið Barr í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri er með góðgerðarmánuð í gangi hjá sér fram tíl 10. október. Á fjórum vikum mun 10% af heildarsölu kaffihússins renna óskipt til Grófarinnar sem er gjaldfrjálst geðræktarúrræði á Akureyri.

„Lífið er of stutt fyrir vont kaffi og það er rosalega góð gjöf til sjálfs sín að gefa sér einn góðan kaffibolla og ennþá betra ef kaffibollinn getur leitt af sér eitthvað gott," segir Silja Björk Björnsdóttir, eigandi Barr, en kaffihúsið hefur blásið til góðgerðarmánuðar frá 10. september til 10.október. Segist Silja vilja gefa tilbaka til samfélagsins en kaffihúsið hennar hefur fengið afar hlýjar móttökur hjá Norðlendingum frá því það opnaði í Hofi fyrr í sumar. „Ég hef verið svo lengi í þessum geðheilbrigðismálum og geira þannig að mér fannst liggja beinast við að styrkja Grófina," segir Silja.

Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum fagnað

Dagsetning á góðgerðarmánuðinum er útpæld því 10. september er alþjóðlegur forvarnardagur gegn sjálfsvígum og 10. október er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og afmæli Grófarinnar. „Það fer 10% af allri heildarsölu beint til Grófarinnar og svo erum við að íhuga hvort við eigum ekki að vera með einhverja afmælishátíð og fagna alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum og vekja athygli á því sem er í gangi hér fyrir norðan. Píeta samtökin eru náttúrulega komin hingað og Grófin er að vinna mjög gott og mikið starf. Við horfum náttúrulega mikið til Geðhjálpar fyrir sunnan sem eru þessi stærstu samtök og ég var að vinna fyrir þau samtök á sínum tíma, þannig það er spurning hvort við bjóðum ekki bara öllum að koma norður í Hof og fá sér kaffi á Barr og fagna afmæli Grófarinnar og fagna alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum."

Silja Björk og Sonja Rún Magnúsdóttir frá Grófinni voru í viðtali í Föstudagsþættinum en auk þess að ræða þetta samstarf þá töluðu þær líka um þá viðhorfsbreytingu og vitundarvakningu sem orðið hefur í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum. Viðtalið við þær stöllur má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.