miðvikudagur 29. desember 2021

Kaka með lakkrís, kókos og créme brulée getur ekki klikkað

Kaka með lakkrís, kókos og créme brulée getur ekki klikkað
Verðlaunakaka frá bakaríinu á Sauðárkróki. Kakan lenti í þriðja sæti í keppninni um köku ársins.

N4 ritstjórn08.01.2022

Kaka með lakkrís og kókosbollum hlýtur að falla Íslendingum vel í geð hugsaði Karsten Rummelhoff konditormeistari í Sauðárkróksbakarí þegar hann tók þátt í hinni árlegu keppni um köku ársins. Kakan hans lenti í þriðja sæti.

Kakan ársins er árlega valin af Landssambandi bakarameista. Bakarar landsins taka þátt í forkeppni og þegar kaka ársins hefur verið valin er uppskriftinni dreift til allra félagsmanna og geta þeir bakað kökuna í sínum bakaríum og selt út árið. Sala kökunnar hefst á konudaginn 20. febrúar.

Hvað eru Íslendingar hrifnastir af?

Karsten Rummelhoff, konditormeistari í Sauðaárkróksbakarí tók þátt í keppninni í ár, lenti í úrslitum og endaði í þriðja sæti. „Ég hef gert margar góðar kökur í gegnum árin en þessi er í topp þremur," segir Karsten. Hann segist alltaf vera að spá í kökum og sækjs hugmyndir víða. Hann segir að hugmynd af kökunni hafi kviknað þegar hann fór að hugsa út í hvað Íslendingar eru hvað hrifnastir af og var niðurstaðan lakkrís og kókosbollur, svo hann notaði hvor tveggja í kökuna.

Eins og áður segir þá hefst sala á köku ársins í febrúar en það er hægt að koma við í Sauðarkróksbakarí og kaupa kökuna hans Karstens, en Karsten sagði nánar frá henni í þættinum Að norðan og má sjá viðtalið við hann hér fyrir neðan.