N4 ritstjórn13.06.2022
Kvennakór Hornafjarðar er að leggja upp í langferð. Kórinn hélt nýverið fyrri vortónleika sína á Höfn en er á leið í höfuðborgina til að syngja þar líka. Síðan heldur kórinn í kórferðarlag til Bretlands.
Vortónleikar Kvennakórs Hornafjarðar verða í Guðríðarkirkju þann 14. júní kl. 20 en kórinn hélt fyrri vortónleika sína á Höfn þann 9. júní sl. Að tónleikum loknum fer kórinn í söngferðalag til Bretlands og mun syngja þar í borgunum Bournemouth og Pool. Kórinn fer í söngferðalög erlendis á þriggja ára fresti og gerir það mikið fyrir kórinn að syngja á erlendri grund.
Kór sem barðist fyrir tvíbreiðum brúm
Kvennakór Hornafjarðar er einnig þekktur sem baráttukór eftir að hafa sungið á og vakið athygli á einbreiðum brúm í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þá söng kórinn við formlega athöfn Vegagerðarinnar þegar tvíbreið brú við Steinavötn í Suðursveit var tekin í notkun. Stjórnandi kvennakórs Hornafjarðar er Heiðar Sigurðsson sem hefur útsett og samið mörg þeirra laga sem kórinn er með á söngskrá sinni. Á dagskrá vortónleikanna eru meðal annars þessi lög: Bohemian Rhapsody - Freddie Mercury, Draumalandið - Sigfús Einarsson, Einskonar ást - Magnús Kjartansson, Hallelujah – Leonard Cohen og Hvert örstutt spor - Jón Norðdal og Halldór Laxness.