Lambakjötið og fiskurinn alltaf ofarlega á vinsældarlistanum

Lambakjötið og fiskurinn alltaf ofarlega á vinsældarlistanum
Eldhúsið í nýjum Vilhelm Þorsteinssyni er rúmgott / mynd n4.is

Karl Eskil Pálsson06.04.2021

Ágúst Þór Bjarnason er kokkur á nýjum Vilhelm Þorsteinssyni EA, uppsjávarveiðiskipi Samherja. Skipið kom til Akureyrar um helgina. Ágúst Þór segir að eldhúsið sé vel búið á allan hátt.

„Túrarnir á svona skipum geta hæglega dregist á langinn og þá þarf maður að vera með góðan lager og hafa til þess rúmgóðar hirslur. Ég var með í ráðum þegar eldhúsið var skipulagt og er mjög sáttur við útkomuna, þetta er í raun toppaðstaða.“

Steikur um helgar

Ágúst Þór segir að maturinn þurfi að vera orkuríkur og hollur enda vaktirnar hjá áhöfninni stundum langar.

„Hefðbundni íslenski heimilismaturinn er alltaf vinsæll og fellur vel í kramið hjá áhöfninni. Um helgar eru gjarnan steikur á boðstólum og þegar einhver á til dæmis afmæli, við reynum að gera okkur dagamun. Maturinn þarf að vera orkuríkur og hollur og þess vegna er ekkert sparað í íslenska lambakjötinu og fiskinum sem öllum þykir góður. Lambið og fiskurinn eru alltaf ofarlega á vinsældarlistanum. Ég hlakka til að vinna með góðri áhöfn á þessu flotta skipi,“ segir Ágúst Þór Bjarnason kokkur.